Öðrum degi Meistaramóts Íslands lauk í dag. Eithvað var um forföll í liðinu en ungt og efnilegt fólk í bland við reynslumeiri einstaklinga stóðu sig með prýði.
Fjölþrautarstúlkan Helga Margrét Haraldsdóttir keppti í fimm greinum um helgina og náði verðlaunum í 200m hlaupi þar sem hún nældi í brons á persónulegri bætingu, 25,43 sekúndum. Hún bætti sig einnig í kúluvarpi með 4kg kúlunni þegar hún varpaði henni 11,33metra.
Hildigunnur Þórarinsdóttir sem sigraði þrístökkið á fyrri degi mótsins nældi sér í brons og persónulega bætinu í 60m grindahlaupi þegar hún hljóp á 9,09sekúndum. Helga Margrét kom rétt á eftir henni í mark á tímanum 9,10 sekúndum. Hildigunnur varð 4-5 sæti í langstökkinu með 5,28 metra.
Í stangarstökki kvennan náði Stella Dögg Blöndal öðru sæti þegar hún bætti sinn besta árangur og stökk 3,12metra. Hilda Steinnunn úr FH sigraði stangarstökkið með 3,60metra en Hulda okkar Þorsteinsdóttir var fjarri góðu gamni með flensuna.
Í hástökki karla var gaman sjá tugþrautarkappana okkar þá Jón Gunnar Björnsson og Benjamín Jóhann Johnsen bæta sinn besta árangur og stökkva 1,91metra. Jón Gunnar sem notaði færri tilraunir til að fara yfir hæðina þar á undan varð í öðru sæti en Benjamín í því þriðja. Frábært hjá þeim.
Í grindahlaupinu náði Benjamín einnig þriðja sæti þegar hann bætti sig og hljóp á 8,65 sekúndum. Einar Daði Lárusson varð í öðru sæti í því hlaupi á tímanum 8,39 sekúndum.
Í 800m hlaupi kvenna var þrefaldur sigur hjá ÍR og þrjár persónulegar bætingar. Iðunn Björg Arnaldsdóttir sigraði og hljóp á tímanum 2:19,84. Ingibjörg Sigurðardóttir varð önnur þegar hún hljóp á 2:21,22 og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir varð í þriðja sæti og bætti einnig sinn besta árangur á tímanum 2:23,35.
Í 3000m hlaupi kvenna varð Andrea Kolbeinsdóttir í öðru sæti á tímanum 10:17,55mínútum. Elín Edda Sigurðardóttir sem hefur verið að standa sig vel í lengri götuhlaupunum var að bæta sinn besta árangur í 3000m hlaupi og hljóp á 10:17,81mínútum. Fríða Rún Þórðardóttir keppti einnig í 3000m hlaupi og hljóp á 10:51,30mínútum og varð í fimmta sæti.
Í 3000m hlaupi karla varð Þórólfur Ingi Þórsson í öðru sæti á nýju persónulegu meti 9:11,73mín sem er jafnframt Íslandsmet í flokki 40-45 ára. Þórólfur reimaði einnig á sig skóna til að hlaupa 4x200m boðhlaup með B-sveit ÍR en var það hans fyrsta tilraun í boðhlaupi.
Sæmundur Ólafsson sigraði í 800m hlaupi karla en hann varð einnig Íslandsmeistari í 1500m hlaupinu á fyrri degi. Sæmundur kom í mark á tímanum 1:56,12mínútum. Í fjórða sæti í hlaupinu varð Andri Már Hannesson en hann bætti sinn persónulega árangur og hljóp á 2:03,66mínútum. Í 800m hlaupi karla voru sjö ÍR-ingar að keppa og þar af fjórir með persónulegar bætingar.
Í kúluvarpi kvenna sigraði Thelma Lind Kristjánsdóttir með kast upp á 14,08 metra og Erna Sóley Gunnarsdóttir varð í öðru sæti með kast upp á 13,73metra.
Þrátt fyrir mikil forföll í liðinu náði ÍR að tefla fram tveimur boðhlaupssveitum í 4x200m boðhlaupum. Í kvennaflokki hlupu þær Elma Sól, Dagjört Lilja, Hildigunnur og Helga Margrét í A sveit á náðu öðru sætinu. Í karlaflokki hlupu þeir Benjamín Jóhann, Úlfur Árnason, Helgi Björnsson og Sæmundur Ólafsson og náðu þeir þriðja sætinu.
Eftir erfiðan fyrri dag hjá ÍR náði liðið heldur betur að saxa á stigakeppnina í dag enda mikið af glæsilegum árangri. Það endaði þó sem svo að ÍR varð í öðru sæti með 30498 stig en FH sigraði að þessu sinni með 32427 stig.
Á myndinni eru þær Iðunn Björg, Ingibjörgu Sigurðardóttir og Dagbjört Lilja á verðlaunapalli eftir 800 metrana. Öll úrslit mótsins má nálgast á mótaforritinu Þór á heimasíðu FRÍ (www.fri.is).
Eftir tvær vikur fer svo fram Bikarkeppni FRÍ en ÍR-ingar munu tefla fram sterku liði og verður gaman að fylgjast með liðinu á lokamóti innanhússtímabilsins.