Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki

ÍR-ingar sigruðu Meistaramót Íslands í Frjálsíþróttum á  Sauðakróki um helgina. ÍR-ingar unnu til 14 Íslandsmeistaratitla, 12 silfurverðlauna og 13 bronsverðlauna. Í kvennaflokki sigraði ÍR stigakeppnina með 42 stig, FH-ingar urðu í öðru sæti með 27 stig og Ármenningar í þriðja sæti með 8 stig. Karlamegin sigruðu ÍR-ingar einnig með yfirburðum en þeir náðu samtals 37 stigum, Breiðablik var í öðru sæti með 28 stig og UMSS í þriðja sæti með 13 stig.

Eitt Íslandsmet féll og var það kvennasveit ÍR sem bætti eigið Íslandsmet í 4x100m boðhlaupi. Sveitina skipuðu þær Tiana Ósk Whitworth, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Þess má geta að þær Hrafnhild, Tiana og Guðbjörg skiptu allar með sér verðlaununum í bæði 100m og 200m hlaupum á mótinu og fengu þær viðurnefnið “skytturnar þrjár úr ÍR” á mótinu.

Persónulegar bætingar litu dagsins ljós en Ívar Kristinn Jasonarson bætti sinn besta árangur í 100m hlaupi þegar hann hljóp á 10,81sekúndum og kom annar í mark á eftir félaga okkar úr UMSS sem bætti sig einnig,  honum Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni. Ívar hljóp svo til sigurs  með yfirburðum í bæði 400m hlaupi og 400m grindahlaupi auk þess sem hann hljóp í 4x100m boðhlaupi og tók einnig sögulegan endasprett í 4x400m boðhlaupi þegar hann fékk keflið þriðji en náði bæði UMSS keppandanum og Breiðabliksmanninum á lokametrunum og sigraði því ÍR glæsilega í 4x400m boðhlaupinu. Sveitina skipuðu þeir Þorvaldur Tumi Baldursson, Úlfur Árnason, Sæmundur Ólafsson og Ívar Kristinn Jasonarson.

Mun meira var um  bætingar og glæsilegan árangur á mótinu meðal okkar fólks en öll úrslitin á mótinu má nálgast á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins og hvetur undirrituð áhugsama til þess að skoða glæsilegan árangur á mótinu.

 

 

 

 

 

X