ÍR-ingar tilnefndir til fjölda viðurkenninga

2. desember sl. hélt Frjálsíþróttasamband Íslands uppskeruhátíð sína vegna 2022 til að heiðra þá
frjálsíþróttamenn sem staðið hafa upp úr á árinu 2022.

Skemmst er frá því að segja að ÍR hlutu 8 viðurkenningar og þar á meðal var Erna Sóley Gunnarsdóttir
ÍR útnefnd sem frjálsíþróttakona ársins en hún átti frábært ár, varpaði kúlunni 17,29 metra, varð
norðurlandameistari U23 og svæðismeistari bæði innan og utanhúss með skólaliði sínu í Bandaríkjunum.
Hún tók auk þess þátt í sínu fyrsta stórmóti fullorðinna, EM í Munchen.

Guðni Valur Guðnason kringlukastari úr ÍR var sá frjálsíþróttakarl sem náði hvað bestum árangri
samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu IAAF, hlaut hann 1157 stig fyrir 65,27 m í kringlukasti. Guðni Valur
keppti, eins og Erna Sóley, á EM í Munchen og hafnaði þar í 12. sæti. Gaman er að segja frá því að
Guðni Valur er tilnefndur til tiltilsins íþróttamaður Reykjavíkur 2022.

Besta spretthlaups afrekið átti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR fyrir 24,05 sek í 200m innanhúss.
Dagur Fannar Einarsson ÍR var kjörinn fjölþrautarkarl ársins, en hann var með langbestan árangur ársins
í tugþraut, sem er athyglivert þar sem Dagur er svo til nýbyrjaður að æfa tugþraut.
Hlynur Andrésson var valinn götu- og langhlaupari ársins, en Hlynur hefur átt þessa útnefningu nokkur
ár í röð enda frábær hlaupari og afreksmaður.

Andrea Kolbeinsdóttir ÍR var valin utanvegahlaupari ársins í kvennaflokki, fyrir frábæra frammistöðu í
Laugavegshlaupinu þar sem hún setti einstakt brautarmet kvenna. Einnig fyrir annað sætið í stóru,
alþjóðlegu fjallahlaupi í Sviss nú í haust og síðast en ekki síst vegna frábærrar frammistöðu á HM í
Thailandi í nóvember. Hún er jafnframt Íslandsmeistari í maraþoni kvenna. Andrea er eins og Guðni Valur
tilnefnd til titilsins íþróttakona Reykjavíkur 2022.

Pétur Guðmundsson, kastþjálfari hjá ÍR, var valinn þjálfari ársins og kom það fáum á óvart en Pétur
þjálfar bæði Guðna Val og Ernu Sóley.
Pétur var ekki eini þjálfari ÍR sem hlaut viðurkenningu. Bergur Ingi Pétursson sem þjálfar meðal annars
Elísabetu Rut Rúnarsdóttur sleggjukastara úr ÍR, hlaut hvatningarverðlaun FRÍ en Bergur Ingi tekur að
sér þjálfun íþróttafólks óháð því hvaða félagi þeir tilheyra sem er mjög jákvæður póstur í uppbyggingu
afreksstarfs á landsvísu.

Stjórn Frjálsíþróttadeildar óskar þeim öllum innilega til hamingju
Fríða Rún Þórðardóttir
Formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR

X