Guðbjörg bætti eigið Íslandsmet í 200 m hlaupi

Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á MÍ 15-22 ára á Selfossi 16.6.2019

ÍR sigraði örugglega í heildarstigakeppninni á Meistaramóti Íslands 15-22 ára sem haldið var á Selfossi um helgian. Alls hlutu ÍR-ingar 567,5 stig, 226 stigum meira en lið Breiðabliks sem varð í öðru sæti með 341,5 stig. Heimamenn í HSK/Selfoss höfnuðu í þriðja sæti með 333,5 stig. Í aldursflokki 18-19 ára báru ÍR-ingar sigur hjá báðum kynjum, sem og hjá stúlkum 20-22 ára.

Mikið var um góðan árangur og bætingar í öflugum hópi ÍR en hæst ber þó glæsilegt Íslandsmet Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur í 200 m hlaupi, sem sett var á seinni degi mótsins. Nýja metið er 23,45 sek, sem tveimur hundruðustu hlutum úr sekúndu betri tími en fyrra met hennar sem hún setti á Ólympíuleikum ungmenna í október sl. Þetta er í fjórða sinn sem hún setur Íslandsmet í 200 m hlaupi á einu ári. Guðbjörg, sem er fædd árið 2001, keppir í flokki 18-19 ára stúlkna og þrjár aðrar ÍR-stúlkur tóku þátt í hlaupinu og bættu þær sig allar. Tiana Ósk Whitworth sem varð önnur í hlaupinu náði þeim frábæra árangri að komast undir 24 sek múrinn og hljóp á 23,81 en fyrir átti hún best 24,21 sek. Myndband af hlaupinu og fagnaðarlátum Guðbjargar má sjá á vef RÚV.

Guðbjörg sigraði einnig í 100 m hlaupi 18-19 ára stúlkna þar sem hún var sjónarmun á undan Tiönu og var tími beggja 11,72 sek. Þá voru þær báðar í sveit ÍR sem setti mótsmet í 4×100 m hlaupi 18-19 ára stúlkna á tímanum 48,42 sek, en auk þeirra voru þær Ingbjörg Sigurðardóttir og Þóra Kristín Hreggviðsdóttir í sveitinni. Ingibjörg setti einnig mótsmet í 400 m hlaupi í aldursflokknum þegar hún hljóp vegalengdina á 58,31 sek sem er bæting hjá henni. Agnes Kristjánsdóttir sigraði í 100 m hlaupi 20-22 ára stúlkna tímanum 12,24 sek, sem er undir mótsmeti en meðvindur mældist yfir mörkum. ÍR-ingar settu tvö mótsmet í aldursflokknum. Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal stökk 3,20 m í stangarstökki og Dagbjartur Daði Jónsson kastaði spjótinu 71,62 m.

 

ÍR-ingar unnu til langflestra verðlauna á mótinu, alls 97, þar af voru 40 gull, 35 silfur og 22 brons. Við óskum þessum frábæra hópi innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim áfram á keppnistímabilinu en meðal verkefna framundan eru Vormót ÍR, sem haldið verður 25. júní og Meistaramót Íslands sem haldið verður um miðjan júlí. Um næstu helgi er svo komið að yngri iðkendunum sem munu spreyta sig á Meistaramóti Íslands 11-14 ára, sem haldið verður á Laugardalsvelli.

ÍR-ingar fagna sigrí í heildarstigakeppni á MÍ 15-22 ára, haldið á Selfossi 15.-16. júní 2019

X