Góður árangur hjá Guðbjörgu Jónu í Györ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hleypur á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar 2017. Mynd frá ÍSÍ.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp í dag í úrslitum í 100m hlaupi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Guðbjörg hljóp á frábærum tíma, 11,78 sek og hafnaði í fimmta sæti, en því miður var vindurinn (+6,0) of mikill til að hlaupið sé löglegt. Engu að síður er þetta glæsilegur árangur hjá Guðbjörgu Jónu, sem verður ekki 16 ára fyrr en í árslok.

Á morgun hleypur Guðbjörg Jóna í undanrásum í 200m hlaupi. Þá hefur Helga Margrét Haraldsdóttir keppni á morgun, en hún keppir í þrístökki.

Guðbjörg Jóna var ekki eina íslenska frjálsíþróttastúlkan sem keppti í úrslitum í sinni grein í dag. Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki keppti í úrslitum í langstökki og hafnaði í 11. sæti með stökki upp á 5,37.

Mynd frá ÍSÍ.

X