Spretthlauparinn Tiana Ósk Whitworth hefur lokið keppni á Evrópumeistaramóti U20. Í dag hljóp hún í undanrásum í 200m hlaupi. Tiana hljóp í öðrum riðli og kom sjöunda í mark, á tímanum 24,88 sek. Hún á best 24,53 sek frá því á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar. Þótt þessi árangur hafi ekki dugað henni til að komast áfram í undanúrslitin er þetta virkilega góð frammistaða hjá Tiönu, sem varð 17 ára fyrr í mánuðinum.
Af öðrum íslenskum keppendum á mótinu er það að frétta að Erna Sóley Gunnarsdóttir Aftureldingu keppti í kúluvarpi í morgun og kastaði kúlunni 13,22m og varð í 22. sæti. Þá hefur Irma Gunnarsdóttir lokið keppni í sjöþraut, þar sem hún hafnaði í 20. sæti með 5113 stig, sem er rétt við hennar besta árangur.