Frjálsíþróttakeppni Reykjavík International

Frjálsíþróttakeppni Reykjavík International fór fram í Laugardalshöll í dag. Eins og oft áður voru ÍR-ingar sem kepptu að standa sig mjög vel. Við áttum þrjú gull, þrjú silfur, eitt brons og eina frábæra persónulega bætingu

Í 800m hlaupi karla sigraði Sæmundur Ólafsson á tímanum 1:54,35 sem er persónuleg bæting hjá honum.  Dagbjartur Kristjánsson ÍR keppti einnig í 800m hlaupi og varð í fjórða sæti á tímanum 2:03,39. Í öðru og þriðja sæti voru Fjölnismennirnir Hugi Harðason og Daði Arnarsson en Martha okkar Ernsdóttir hefur ásamt þjálfun ÍR-inganna séð um þjálfun millivegalegnda- og langhlaupara Fjölnis.

Í 60m hlaupi kvenna kepptu ÍR-ingarnir Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir,  Helga Margrét Haraldsdóttir, Elma Sól Halldórsdóttir og Hildigunnur Þórarinsdóttir. Hrafnhild varð í fjórða sæti í úrslitahlaupinu á 7,68 sekúndum.  Helga Margrét varð í níunda sæti á 7,91 sek, Elma Sól varð í 11 sæti á 8,06 sek og Hildigunnur Þórarinsdóttir varð í 12. sæti á 8,17 sek sem er ársbesti tími hennar.

Í 400m hlaupi kvenna kepptu þær Dagbjört Lilja Magnúsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Sara Hlín Jóhannsdóttir (Beiðablik). Dagbjört Lilja sigraði riðilinn á 61,47 sek en Ingibjörg fylgdi fast á eftir og kom í mark á tímanum 61,92 sek. Í 400m hlaupi voru þrír riðlar en í sterkasta riðlinum sigraði Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH á 54,39 sek.

Í 800m hlaupi kvenna háði Aníta Hinriksdóttir spennandi keppni við aðrar stúlkur í heimsklassa og eftir harða keppni sigraði Emily Cherotitch frá Kenía á tímanum 2:02,39 en Aníta varð önnur á tímanum 2:02,68 og Megan Manley frá Bandaríkjunum varð þriðja á tímanum 2:04,09.

Í stangarstökki kvenna sigraði Hulda Þorsteinsdóttir með stökk upp á 4,10 metra en Chloé Henry frá Belgíu varð önnur, einnig með stökk upp á 4,10 metra. Hulda notaði færri tilraunir til að fara yfir hæðirnar á undan og sigraði því keppnina. Í þriðja sæti varð Line Renée Jensen frá Danmörku með stökk upp á 3,90 metra.

Í kúluvarpi kvenna urðu ÍR-ingar í 1-2 sæti. Thelma Lind Kristjánsdóttir sigraði keppnina með frábært kast upp á  14,70 metra en fyrr í vikunni stórbætti hún sig þegar hún kastaði 14,95metra. Erna Sóley Gunnarsdóttir varð önnur með kast upp á 13,79 metra.

Í kúluvarpi karla varð Guðni Valur Guðnason sem þó einblýnir á kringlukast, í öðru sæti með kast upp á 16,64 metra.  Scott Lincoln frá Bretlandi sigraði keppnina með kast upp á 17,65 metra. Kristján Viktor Kristinsson Breiðablik varð í þriðja sæti og kastaði 15,19 metra.

Í 600m hlaupi pilta 15 ára og yngri tók Einar Andri Víðisson þátt fyrir hönd ÍR. Hann bætti sig og hljóp á tímanum 1:37,38mín

Í 600m hlaupi stúlkna 15 ára og yngri keppti Signý Lára Bjarnadóttir ÍR og varð í þriðja sæti á tímanum 1:47,67mín.

Til hamingju ÍR-ingar með frábæran árangur! Frekari úrslit frá mótinu má sjá á mótaforritinu Þór á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins.

Á myndinni má sjá Sæmund Ólafsson koma fagnandi í mark.

X