Það var mikið fjör í Laugardalshöll í dag þegar rúmlega 200 börn á aldrinum 5-11 ára, sem mörg hver voru að stíga sín fyrstu skref á frjálsíþróttamóti, kepptu á Bronsleikum ÍR. Bronsleikarnir eru árviss viðburður hjá frjálsíþróttadeildinni og eru yngstu iðkendurnir í öndvegi. Níu ára og yngri fara í gegnum þrautabraut, sem telur sex greinar hjá sjö ára og yngri, en sjö hjá 8-9 ára börnum. 10-11 ára keppa í fjórþraut, þar sem greinarnar eru 60 m hlaup, kúluvarp, langstökk og 600 m hlaup og má sjá úrslit í mótaforriti Frjálsíþróttasambandsins.
Krakkarnir voru mörg hver að stíga sín fyrstu skref á frjálsíþróttamóti og virtust þau og aðstandendur þeirra skemmta sér vel og er þeim, sem og þeim fjölda sjálboðaliða sem starfaði á mótinu, þakkað fyrir þátttökuna.
Á mótum og hlaupum sem frjálsíþróttadeildin heldur hefur skapast sú hefð að heiðra sjálfboðaliðana okkar með því að afhenda Sjálfboðaliðabikarinn. Án góðs hóps sjálfboðaliða væri ógerningur að halda viðburðina. Að þessu sinni kom bikarinn í hlut Guðrúnar Margrétar Örnólfsdóttur.
Bronsleikarnir eru haldnir til að minnast glæsilegs afreks Völu Flosadóttur á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og hafa verið haldnir árlega frá 2010.