EM í München: Guðni kastaði 61,80m og komst áfram í úrslit

Guðni Valur Guðnason keppti í undankeppni kringlukasts karla á Evrópumeistaramótinu í München í dag.

Guðni kastaði í seinni kasthópi í dag og byrjaði keppnina með 61,10m löngu kasti. Hann lengdi sig síðan í öðru kasti og kastaði 61,80m. Það setti hann í 12. sætið í heildina en einungis tólf komast í úrslit. Guðni kastaði síðan 61,12m í þriðju og síðustu umferð og sat sem fastast í tólfta og síðasta úrslitasætinu. Við tóku spennuþrungnar mínútur og næsta víst að þjóðin öll hafi krossað fingur og vonað að enginn af þeim sem áttu eftir að kasta færu fram úr Guðna. Það gerðist ekki og Guðni komst því áfram í úrslitin sem fara fram á föstudagskvöld.

 

Þetta er lengsta kast Guðna á stórmóti og í fyrsta sinn sem hann kemst í úrslit. Hann er annar Íslendingurinn sem kemst í úrslit á þessu Evrópumeistaramóti en fyrr í dag tryggði Hilmar Örn Jónsson sig inn í úrslit í sleggjukasti líkt og lesa má um hér.

 

Heimild: https://silfrid.is/2022/08/17/em-i-munchen-gudni-kastadi-6180m-og-komst-afram-i-urslit/

X