Brynjar Gunnarsson hefur kvatt okkur eftir hetjulega baráttu við krabbamein

Á skírdag lést vinur okkar og félagi Brynjar Gunnarsson eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Brynjar byrjaði ungur að æfa frjálsar hjá Frjálsíþróttadeild ÍR og keppti með liðinu og unglingalandsliði Íslands til fjölda ára. Brynjar starfaði óslitið með deildinni alla tíð. Fyrst sem efnilegur íþróttamaður og síðan sem frábær þjálfari en hann var menntaður íþróttafræðingur og starfaði við kennslu við góðan orðstír.

Brynjar var einstök manneskja og þjálfari, sem náði frábærum árangri og hafði mjög mikla ástríðu fyrir þjálfun og velgengni allra sinna íþróttamanna og í raun allra íþróttamanna.

Hann átti vináttu allra þeirra sem hann þjálfaði og starfaði með og í kringum Brynjar var alltaf gleði og jákvæðni og hann brann fyrir frjálsar og ÍR. Þrátt fyrir veikindin sem Brynjar glímdi við þá þjálfaði hann með góðum árangri allt fram á síðasta dag og skilur hann eftir sig stórt skarð sem erfitt verður að fylla.

Mikill söknuður ríkir hjá okkur öllum en hugurinn er hjá Stefaníu, Mána og fjölskyldu hans allri. Minning Brynjars mun lifa um ókomna tíð í hjörtum okkar og við munum varðveita hana með þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast honum og eiga allar góðu stundirnar saman.

X