Benjamín yfir 7000 stiga múrinn í tugþraut

Benjamín Jóhann Johnsen á RIG 2019

Benjamín Jóhann Johnsen (f. 1996) keppti í tugþraut á móti í Uppsala í Svíþjóð um síðustu helgi en hann var þar gestaþáttakandi í landskeppni Svía og Finna sem fór fram samhliða Norðurlandamóti ungmenna í tugþraut. Benjamín var þar ásamt níu öðrum íslenskum þátttakendum auk þjálfara sína Þráins Hafsteinssonar og liðsstjóra Eiríks Mörk frá Breiðabliki.

Benjamín gerði sér lítið fyrir og bætti sig vel í þrautinni, eða um 606 stig frá sama móti í fyrra, og á nú best 7047 stig. Hann er nú 12. besti tugþrautarmaður Íslands frá upphafi og setur fyrir aftan sig mikla kappa til að mynda Örn Clausen og Björgvin Hólm. Á þessum top 12 lista eru fjórir aðrir núverandi ÍR-ingar en það eru Einar Daði Lárusson 7898 stig (2.sæti), Þráinn Hafsteinsson 7592 stig (3.sæti) (var þá HSK maður), Þorsteinn Reynir Þórsson 7329 stig (6.sæti) og Tristan Freyr Jónsson 7078 stig (11.sæti).

Benjamín hefur bætt sig gríðarlega frá fyrstu þraut sinni en skv. afrekaskrá FRÍ nemur bætingin 1366 stigum frá því að hann keppti fyrst í tugþraut fyrir aðeins tveimur árum síðan. Í þrautinni núna bætti hann sinn besta árangur frá upphafi í sjö greinum; 100m, 110m grindahlaupi, 1500m, langstökki, stangarstökki, kúluvarpi og spjótkasti auk þess að kasta kringlunni lengra en fyrr í tugþrautarkeppni.

Það eru spennandi tímar hjá Benjamín en eftir stutta hvíld tekur við keppnistímabilið heima sem er undirbúningur fyrir Evrópukeppnin landsliða í fjölþraut 2. deild sem fram fer í Ribeira Brava í Portúgal 6. – 7. júlí en þar hefur Benjamín unnið sér sæti sem landsliðsmaður Íslands. Sjá hér http://www.european-athletics.org/competitions/european-combined-events-team-championships-second-league/index.html

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

Til hamingju Benjamín, Þráinn og þjálfararnir sem að þessum árangri koma, sólin skýr enn skærar við þessar fréttir.

X