ÍR átti alla keppendur Íslands á Heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem fram fór í Valencia á Spáni 24. mars. Andrea Kolbeinsdóttir bætti sinn fyrri árangur verulega og hljóp önnur íslenskra kvenna undir 80 mínútna markinu þegar hún kom í mark í 99. sæti á tímanum 1;19:46 klst. Hún átti best áður 1:22.30 mín og stekkur því upp í annað sætið á íslenskri afrekaskrá í hálfu maraþoni aðeins 19 ára gömlu, en árangurinn gefur henni 923 IAAF árangursstig. Aðeins þjálfari Andreu, Martha Ernstsdóttir, á betri tíma 1:11:40 klst sem jafnframt er Íslandsmet. Elín Edda Sigurðardóttir bætti sinn besta tíma um 5 sekúndur þegar hún kom í mark á tímanum 1;21:20 klst og 889 IAAF stig og er nú í 5. sæti á íslenskri afrekaskrá í hálfu maraþoni. Með þessu árangri náði hún 104 sæti af 122 í hlaupinu.
Arnar Pétursson hljóp einnig mjög vel og bætti sig þegar hann kom í mark á tímanum 1;07:29 klst. og endaði í 117. sæti af 160 keppendum. Hann átti best 1:08,02 klst síðan í þessu sama hlaupi fyrir 2 árum síðan (26.03.16). Arnar er nú í 4. sæti á íslenskri afrekaskrá í hálfu maraþoni og er þetta besti árangur Arnars í keppni frá upphafi en tíminn gefur nákvæmlega 900 stig.
ÍR-ingar áttu einnig fulltrúa í almenningshlaupi sem haldið var samhliða HM. Vignir Már Lýðsson ÍR bætti sig um 3 mínútur en hann hljóp á 1:15.11 klst og Þórólfur Ingi Þórsson hljóp á 1:15.26 mín og bætti sig um 3 sek.
Við óskum hlaupurunum til hamingju með góðan árangur.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.