Keppni heldur áfram á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Györ. Veðrið hefur sett mark sitt á mótið það sem af er, en í dag þurfti að gera hlé á keppni vegna úrhellis.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, sem keppti í úrslitum í 100m hlaupi í gær, keppti í 200 m í dag. Í undanrásunum hljóp hún í fyrsta riðli, þar sem hún hafnaði í öðru sæti á tímanum 24,77 sek. Í undanúrslitunum, sem fóru fram nú síðdegis, var tími Guðbjargar 24,57 sek. Hún varð þriðja í riðlinum og á sjötta besta tímanum í heildina og þar með búin að tryggja sig inn í úrslitahlaupið á morgun. Vel gert, Guðbjörg!
Helga Margrét Haraldsdóttir stóð sig ekki síður vel í þrístökkinu, þótt hún næði ekki inn í úrslitin. Í þriðja og síðasta stökki fór hún 11,57m, sem er bæting hjá henni, en fyrir átti hún 11,42 frá því á Vormóti ÍR 2017.
Á morgun hefst svo keppni hjá þriðja ÍR-ingnum á mótinu, Iðunni Björgu Arnaldsdóttur, sem keppir í 1500 m hlaupi.