Unnur Elva semur til þriggja ára

Við getum nú flutt þær ánægjulegu fréttir að nú í vikunni ritaði Unnur Elva Traustadóttir undir þriggja ára samning við ÍR-inga og skartar hvítbláuhjarta í Mjóddinni með okkur áfram.
Unnur kom til félagsins síðasta vor og var lykilmaður í okkar liði, lék 15 leiki í deildinni og var markadrottning með 7 mörk. Nú í haust kusu samherjar hennar hana bæði besta leikmanninn og besta félagann.
Engilbert þjálfari var hæstánægður með undirritunina. “Unnur er gríðaröflugur framherji, klókur leikmaður og verulega góð að klára færi. Hún getur skorað alls konar mörk, báðir fætur öflugir, líkamlega sterk og með gott markanef.
Svo er það ekki síður mikilvægt fyrir okkur að hafa hana í okkar hópi út frá því hversu öflug hún er innan hópsins, þar er hún mikill leiðtogi enda hefur hún borið fyrirliðabandið hjá okkur nú í leikjum vetrarins. Við þjálfararnir erum mjög ánægð með það að Unnur verður í ÍR næstu árin!”.
Magnús formaður var líka býsna kátur! “Við sögðum það síðasta sumar og í haust að við ætlum okkur að færa liðin okkar upp um þrep og höfum í vetur unnið að því. Við búum við gjörbreytta aðstöðu á svæðinu okkar með tilkomu fjölnota hússins og lyftingaaðstöðunnar og við bindum miklar vonir við þjálfarateymið okkar og vinnu þess.
Við teljum okkur vera alvöru valkost fyrir metnaðarfullar knattspyrnukonur sem vilja leggja mikið á sig til að ná árangri. Unnur er svo sannarlega slíkur einstaklingur, hún er með metnað fyrir sjálfa sig og félagið sem hún smitar út frá sér. Gerir kröfur til sín og annarra. Slíka leikmenn viljum við hafa í okkar röðum.”
Frekari frétta er að vænta af samningamálum kvennaliðsins.
“Já. Við gerðum samninga við okkar leikmenn í fyrra en í haust höfum við verið að endurskoða alla okkar samninga og miðum við það að þeir séu sambærilegir milli liðanna okkar. Þeir byggja á því að við ætlum að búa til alvöru aðstöðu fyrir íþróttafólkið okkar til að það ná árangri sem þá getur gefið þeim til baka. Ég er mjög stoltur af þeim skrefum sem við erum að taka og á næstu dögum munum við uppfæra fleiri samninga og svo munum við styrkja liðið fyrir átök sumarsins.
Við munum á næstu árum taka mun öflugar til okkar en á þeim síðustu á öllum sviðum. Markmiðin eru skýr og þangað förum við saman.”
Við hlökkum mikið til að sjá Unni ásamt félögum sínum í ÍR-liðinu í sumar
X