3-427 e.Kr. Fyrstu heimildir um kóreska bardagatækni, svipaða Taekwondo, fundust á veggmálverki frá þessu tímabili. Veggmálverkið fannst í helli einum og er frá tíma konungsríkisins Koguryo.
500-600 e.Kr. Indverski búddhamunkurinn Bodhidharma kom til klaustursins við Shaolin-So í Kína. Þar kenndi hann hugleiðslu, sérstakar líkamlegar æfingar og einnig öndunaræfingar. Afrakstur æfinganna var sá að munkarnir náðu gífurlegri stjórn á líkama sínum og huga. Þessar aðferðir Bodhidharma lögðu svo grunn að kínverskum bardagalistum s.s. Kung fu, Kempo og Tai Chi Chuan. Úr því framlag hans til bardagalistanna er dagsett seinna en veggmálverkin í Koguryo er það ekki alls kostar rétt að hann hafi verið upphafsmaður asískra bardagalista.
57 f.Kr.-668 e.Kr. Konungsríkið Silla ríkti á því svæði sem svarar til suðausturhluta núverandi Suður-Kóreu.
37 f.Kr.-668 e.Kr. Konungsríkið Koguryo ríkti í norðri á því svæði sem svarar til Norður-Kóreu og Mansjúríu. Þar var stríðsskóli sem hét Kyong Dang og öfugt við Hwaranga í Silla þá var skólinn alþýðleg hreyfing.
18 f.Kr.-670 e.Kr. Konungsríkið Paekche ríkti í suðvestri á svæði sem svarar til stórs hluta af núverandi Suður-Kóreu.
Ca. 576 e.Kr. Hwarang skólinn var stofnaður í Silla af búddhamunkinum Won Kwang Bopsa að ósk konungsins Jin Hung. Hwarang, sem þýðir blómstrandi æska, samanstóð af ungum, vel þjálfuðum og áhugasömum aðalsmönnum. Þeir voru m.a. þjálfaðir í bardagatækni, herkænsku, heimspeki og siðfræði. Bardagakerfið sem þeir þjálfuðu eftir var oftast nefnt Soo Bak. Áhersla var lögð á mikið siðferði bæði í umgengni við annað fólk og í bardaga.
668-670 e.Kr. Tíma konungsríkjanna þriggja lauk þegar Silla sameinaði Paekche, suðurhluta Koguryo og Silla í Stór-Silla og stofnaði kóreskt ríki með miðstýringu.
670-918 e.Kr. Konungsríkið Stór-Silla ríkti yfir sameinaðri Kóreu. Þegar Silla var tilbúið að sameina konungsríkin þrjú var það m.a. Hwarang-unum að þakka vegna hæfni þeirra og bardagaanda. Bardagaíþróttirnar í þá daga, sem voru sýndar við opinbera viðburði, voru t.d. Soo Bak (handtækni ráðandi), Tok Kyon I, sem seinna varð Tae Kyon (fóttækni ráðandi), Sirrum (glíma) og Kyok Gom (sverðabardagi).
918-1392 e.Kr. Koryo-veldið tók við af Stór-Silla. Soo Bak varð vinsælast á þessum tíma og snerist ekki lengur einungis um stríðslist heldur var einnig íþrótt með fastmótuðum reglum.
1392-1910 e.Kr. Yi-veldið tók við af Koryo-veldinu og konfúsíusarhyggja var gerð að ríkistrú í staðinn fyrir búddhisma. Með konfúsíusarhyggju áttu hærra settir menn að verja tíma sínum í að „stúdera“ kínversk rit og ljóð eða spila tónlist. Líkamleg áreynsla var einungis fyrir almúgann. Afleiðingin af þessu varð sú að bardagalistir eins og Soo Bak og Tae Kyon urðu fyrir miklum skaða og þróuðust hálfpartinn tilbaka.
1790 e.Kr. Hershöfðingjarnir Yi Dok Mu og Park Tae Ka skrifuðu fyrstu bardagalistakennslubókina, Mu Ye Do Bo Tong Ji. Í fjórum bindum lýstu þeir, með texta og myndum, 24 mismunandi kóreskum bardagalistagreinum sem voru í hættu á að falla í gleymsku því herinn æfði mestmegnis bara bogfimi.
1910-1945 e.Kr. Þegar á hernámi Japana stóð bannaði ríkisstjórnin alla kóreska menningarstarfsemi og þvingaði íbúana til að taka sér japönsk nöfn. Sérhvert form af þjálfun á kóreskum bardagalistum var einnig stranglega bannað. Því var einungis hægt að æfa með mikilli leynd. Japanir komu með nýjar bardagalistir til Kóreu t.d. Judo og Karate. Þær blönduðust svo gömlum formum og kerfum sem t.d. Tang Soo Do og Kong Soo Do byggðust á.
1945 e.Kr. Kórea varð frjálst land og herinn hóf aftur að kenna kóreskar bardagalistir. Nýir skólar opnuðu svo sem Chung Do Kwan og Moo Duk Kwan. Á árunum á eftir fylgdu fleiri skólar í kjölfarið.
1955 e.Kr. Leiðtogar stóru skólanna hittust þann 11. apríl með það að markmiði að sameina mismunandi stíla í eitt stórt kerfi. Þeir sammældust um að sameina stílana undir nafninu Tang Soo Do. Nafninu var síðar breytt í TAEKWONDO sem þótti lýsa betur listinni og var líkara nafninu á hinu gamla Tae Kyon sem er einn af undanförum Taekwondo.
1963 e.Kr. Hershöfðinginn Choi Hong Hee, 9. dan, varð leiðtogi hins nýstofnaða International Taekwondo Federation (ITF). Hann var einn af aðalmönnunum bak við sameininguna í eitt kerfi.
1968 e.Kr. Choi Hong Hee var vísað frá Suður-Kóreu eftir misheppnað valdarán. Hann fór í útlegð til Kanada og bjó þar til dauðadags þann 15. júní 2002.
1972 e.Kr. Kukkiwon var stofnað. Kukkiwon var seinna gert að höfuðstöðvum Taekwondo.
1973 e.Kr. Þann 28. maí var World Taekwondo Federation (WTF) stofnað með Dr. Un Young Kim sem forseta. Fyrsta heimsmeistaramótið var haldið í Kukkiwon.
1973-1975 e.Kr. Hyong og Palgwe, sem hvað stíl varðar voru mjög skyld Karate, var skipt út fyrir Taegeuk og núverandi svartbelta-poomse hjá WTF. Taegeuk Poomse voru þróuð í samvinnu milli Tae Kyon meistarans Song Dok Gi og nokkurra Taekwondo meistara. Í nýju formunum komu fram styttri stöður og fótatæknin sem Taekwondo er núna þekkt fyrir.
© Texti: Ole Havmøller / TTU
© Þýðing: Gústaf Halldór Gústafsson og Jóel K Jóelsson