Taekwondo er ævaforn bardagalist, upprunin á Kóreuskaga, með sögu sem teygir sig meira en 2000 ár aftur í tímann. Taekwondo er nútíma samblanda af mörgum af hinum fjölmörgu bardagalistum sem eru upprunnar í Kóreu. Áður fyrr voru bardagalistir æfðar til notkunar í stríðum þar sem einnig voru notuð vopn s.s. sverð, prik og hnífar.
Árið 1955 voru þessir ólíku bardagastílar sameinaðir og menn völdu hinni „nýju“ bardagalist nafnið Taekwondo sem má lauslega þýða á þennan veg: Tae = að hoppa eða sparka, Kwon = hnefi til að lemja eða eyðileggja með, Do = vegurinn, listin eða kerfið.
Taekwondo er þekkt fyrir margs konar bardagatækni með fótum sem eru u.þ.b. 70 – 80% af tækninni sem æfð er. Nýir nemendur byrja á að æfa bardagastöður, högg með höndum, spörk og varnir. Því næst eru æfðar ýmsar samsetningar á tækninni auk þess sem þjálfaður er hraði, kraftur, liðleiki og áhrifamáttur tækninnar. Í þjálfuninni er einnig lögð mikil áhersla á andlegu hliðina.
Að stunda Taekwondo felur í sér að þjálfa upp það þrek, sjálfstraust og viljastyrk sem þarf til að sigrast á þeim erfiðleikum sem maður stendur frammi fyrir hverju sinni.
Taekwondo felur í sér alla þætti þess sem nefnt er „holl hreyfing“. Gerðar eru styrktar- og liðleikaæfingar fyrir alla vöðva líkamans auk þess sem jafnvægi og samhæfing eru æfð.
Ef til vill mætti skilja það sem hér hefur verið skrifað á þann veg að Taekwondo sé aðeins fyrir sterkbyggða og vel þjálfaða einstaklinga. Það væri þó hinn mesti misskilningur því Taekwondo hæfir nánast hverjum sem er, óháð aldri, kynferði, og líkamlegu ástandi. Sem dæmi má nefna að hjá Taekwondo deild ÍR er starfræktur öflugur barnahópur og í fullorðinsflokkum hafa verið þó nokkrir nemendur sem eru á fimmtugsaldri (og jafnvel eldri) og gefa þeir hinum yngri ekkert eftir. Þá skipa konur stóran hluta nemenda. Þjálfunin er miðuð við hæfni hvers og eins og gildir það jafnt um börn og fullorðna. Auðvitað er það þó svo með Taekwondo eins og annað að sumir æfa af kappi og verða afreksmenn en aðrir stunda íþróttina ánægjunnar vegna og sjálfum sér til andlegrar og líkamlegrar uppbyggingar.
Slysatíðni í Taekwondo er mjög lág. Hún er t.d. mun lægri en í ýmsum vinsælum boltaleikjum t.d. handbolta og fótbolta. Upphitun er ávallt góð, teygjuæfingar minnka til muna hættu á tognunum og þess háttar meiðslum og öryggis er alltaf gætt við framkvæmd æfinga. Það er því ekkert að óttast því þótt Taekwondo gangi að stórum hluta til út á að læra bardagatækni þá læra nemendur einnig að forðast að beita aðra ofbeldi. Sá sem notar Taekwondo til að beita aðra ofbeldi ótilneyddur er ekki sannur Taekwondo-maður og hefur engan veginn skilið tilganginn með Taekwondo.
Þjálfun Taekwondo má gróflega skipta upp í nokkra þætti:
Upphitun (Joonbi undong) skiptir gríðarlega miklu máli þar sem mikið reynir á líkamann og spörk eru oft há og kraftmikil. Því byrjum við allar æfingar á að hita líkamann vel upp.
Grunntækni (Gibon Dongjak) er í raun einn mikilvægasti þáttur Taekwondo og jafnframt það fyrsta sem nýjum nemendum er kennt. Framhaldið byggir svo að miklu leyti á grunntækninni og það veltur á henni hvori nemendur ná góðum árangri síðar meir. Hafi menn tileinkað sér góða tækni eiga þeir alla möguleika á að verða góðir en aðrir lenda í því að reyna „að byggja sér hús á sandi“.
Poomse er annar mikilvægur þáttur í Taekwondo. Nemendur læra samsettar hreyfingar sem tákna bardaga við ímyndaðan andstæðing. Nemandinn æfir þær svo aftur og aftur og sér um leið fyrir sér hinn ímyndaða andstæðing. Þannig þjálfar hann viðbrögð sín sem er nauðsynlegt því lendi hann í raunverulegri hættu gefst enginn tími til að hugsa, líkami og hugur þurfa að starfa rétt og ósjálfrátt saman á örskotsstundu.
Kireugi þýðir bardagi. Til eru margs konar afbrigði af bardagaæfingum í Taekwondo. Ilbon-, Ibon- og Sambon-kireugi (eins-, tveggja- og þriggja skrefa bardagi), anja-kireugi (sitjandi bardagi), tzalbeun-khal-kireugi (bardagi gegn manni með hníf) og svo mætti lengi telja. Einn stærsti og vinsælasti hluti Taekwondo er það sem í daglegur tali Taekwondo-manna er kallað „sparring“. Í sparring mætast tveir keppendur í bardaga með hlífðarbúnað á líkamanum. Á Ólympíuleikunum er keppt í sparring en Taekwondo hefur verið fullgild ólympíuíþrótt síðan á leikunum í Sydney árið 2000.
Kyokpa er aðeins fyrir lengra komna Taekwondo-menn og ber aðeins að æfa undir handleiðslu reyndra manna. Í kyokpa sannreynir Taekwondo-maður tækni sína og kraft með því að brjóta hluti s.s. spýtur, þakhellur og múrsteina.
Hosinsul þýðir sjálfsvörn. Í raun má segja að allar Taekwondo-æfingar séu sjálfsvarnaræfingar að einhverju leyti. T.d. er Poomsae ein mikilvægasta og besta æfing sem hægt er að fá í sjálfsvörn. Nemendur læra líka ýmsa lása og grip gegn andstæðingum og einnig þá bestu sjálfsvörn sem til er: Að forðast vandræði.
Joa Son þýðir hugleiðsla. Mikla áherslu skal leggja á andlega þjálfun eins og líkamlega ef góður árangur á að nást. Við notum oft hugleiðslu til að skerpa hugann fyrir og eftir æfingar og til að losa okkur við streitu og áhyggjur hversdagsins.
Öndunaræfingar (Hohop bob) eru mikilvægar til að virkja Ki sem er orka sem býr innra með okkur öllum. Mjög mikilvægt er að læra að nota Ki-orkuna rétt ætli maður sér að ná langt í bardagalistum.
Auk ofantalinna atriða læra nemendur um ýmsa framandi og skemmtilega hluti s.s. austræna heimspeki og sögu bardagaíþrótta. Segja má að þeim sem byrjar að æfa Taekwondo opnist nýr, spennandi og heillandi heimur, stútfullur af nýjum hlutum sem gaman er að kynnast og læra meira um. Í Taekwondo gildir nefninlega hið góða orðatiltæki: „Svo lengi lærir sem lifir.“ því Taekwondo er ekki tímabundið verkefni heldur lífsstíll, vegur í rétta átt og sá sem fylgir honum af alvöru lifir farsælu og góðu lífi. Því skulu áhugasamir ekki hika við að mæta á æfingu og athuga hvort Taekwondo sé ekki eitthvað fyrir þá.
© Texti: Jóel K. Jóelsson