Kveðja frá Skíðadeild ÍR
Félagar í Skíðadeild ÍR sjá nú á bak góðum félaga. Birgir Hermannsson var einn af ötulustu félagsmönnum okkar um langa hríð. Hann sat í stjórn deildarinnar í mörg ár og formaður frá árinu 1985 til 1994. Á þessum árum var öll starfsemi skíðadeildarinnar í Hamragili. Starfið útheimti mikla sjálfboðavinnu og þar lá Birgir og hans fjölskylda ekki á liði sínu.
Birgir lagði af mörkum margar vinnustundir, hvort heldur var að sinna viðhaldi við mannvirki, viðgerðir á skíðalyftum, vinna við skíðamót eða fararstjórn. En fyrst og fremst var hann góður félagi allra iðkenda og þeir sem voru að hefja æfingar og keppni áttu stuðning hans og hvatningu vísa.
Þær breytingar urðu á starfsemi Skíðadeildar ÍR árið 1992 að gerður var samningur við Reykjavíkurborg um að ÍTR tæki yfir rekstur skíðasvæðisins í Hamragili. Það var ekki síst fyrir tilstuðlan Birgis að slíkur samningur náðist. Það má segja að umræddur samningur hafi gert það að verkum að hægt var að halda áfram góðu starfi í þágu skíðaíþróttarinnar.
Vegna aðstöðuleysis tíðkaðist í mörg ár að stjórnarfundir væru haldnir í heimahúsi, í formannstíð Birgis nutu stjórnarmenn rausnarlegra veitinga á heimili hans og Elvu konu hans.
Elvu, börnum þeirra Birgis og öðrum aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Skíðahreyfingin á Birgi Hermannssyni margt að þakka. Blessuð sé minning mæts manns.
Fyrir hönd Skíðadeildar ÍR,
Gísli Reynisson formaður.
Kveðja frá heldri ÍR-ingum
Góður hópur gamalla skíðamanna úr skíðadeild ÍR kveður nú góðan félaga, sem til margra ára hefur ávallt stutt skíðadeild ÍR og ekki bara deildina heldur skíðaíþróttina í heild sinni. Ekki átti hann nú langt að sækja áhugann því faðir hans, Hermann Stefánsson, íþróttakennari við Menntaskólann á Akureyri, var þekktur fyrir störf sín fyrir skíðaíþróttina og rétt að geta þess að hann átti hugmyndina að nöfnunum svig og brun, sem áður var kallað krókahlaup og brekkuskrið.
Þessi hópur hefur í tugi ára stundað saman skíði bæði hér heima og erlendis, einnig golf og göngutúra og fleira. Alla tíð hefur Birgir verið hinn ljúfi félagi í hópnum ásamt Elvu sinni, þá hafa börnin þeirra stundað skíði og verið keppnisfólk í íþróttinni. Á áttunda áratugnum stofnaði skíðadeildin verslun með notaðan skíðabúnað sem reyndist erfitt að reka með sjálfboðaliði og tók Birgir við þessum rekstri og rak hann í mörg ár. 1985 var Birgir kjörinn formaður Skíðadeildar ÍR og gegndi því embætti í níu ár eða til ársins 1994. Birgir hlaut margs konar viðurkenningar fyrir störf sín að félagsmálum og 1997 var hann sæmdur gullmerki ÍR.
Birgir var hvers manns hugljúfi í góðum hópi og þekktur fyrir sinn góða húmor. Þá var hann þannig gerður að gott þótti til hans að leita og var hann ávallt tilbúinn að leysa hvers manns vanda. Við vinirnir söknum
þessa ljúfa manns sárt og skilur hann eftir stórt skarð í hópnum. Við vottum Elvu og fjölskyldunni samúð við fráfall þessa ljúfa drengs.
Fyrir hönd hópsins,
Þórir Lárusson.