Í kvöld lauk undanúrslitum á Íslandsmóti liða með seinni umferðinni. Þar áttust við Deildarmeistarar 2018 KFR Lærlingar og ÍR KLS annarsvegar en KLS menn þurftu aðeins 3,5 stig úr viðureign kvöldsins til að komast áfram því þeir unnu 11 – 3 í gær. Lærlingar byrjuðu kröftuglega og spilaði Arnar Davíð Jónsson fullkominn leik í 1. leik kvöldsins eða 300. Það kom þó ekki að sök og náðu KLS menn að snúa taflinu við í 2.leik kvöldsins og sigldu þessu svo í höfn í lokaleiknum.
ÍR PLS átti á brattann að sækja gegn KFR Grænu töffurunum en þeir töpuðu í gær með 5 stigum gegn 9. Fyrir þriðja og síðasta leikinn í kvöld var staðan 13- 9 og þurftu PLS menn að ná í að lámarki 5 stig til að jafna stigametin 14 – 14 og það var akkúrat það sem þeim tókst. Þar sem jafnt var eftir þessa tvær umferðir réði heildarpinnafall úrslitum og voru PLS menn aðeins 11 pinnum hærri en KFR Grænu töffararnir og leika þeir því til úrslita á móti félögum sínum í ÍR KLS.
Kvennalið ÍR SK sigraði síðan örugglega í umspilsleik um laust sæti í 1. deild kvenna en þær sigruðu 12 – 2 í gær og þurftu því aðeins 3 stig úr viðureign kvöldsins til að komast upp um deild. Þær voru ekkert að bíða með það og tóku fyrsta leikinn 4 – 0 og því komnar upp um deild.
Úrslitaviðureign karla og kvenna hefst svo mánudaginn 14. maí en hjá konum leika ÍR TT og KFR Valkyrjur til úrslita en Valkyrjur urðu deildarmeistarar 2018. Leiknar eru þrjár umferðir í úrslitum, 14 stig eru í boði í hverri viðureign og því þarf alls 21,5 stig til að hampa Íslandsmeistaratitlinum.