Hlynur Örn Ómarsson ÍR sigrar keilukeppnina á RIG 2019

Hlynur Örn Ómarsson úr ÍR sigraði RIG 2019 sem nú er lokið. Hlynur sigraði Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR í úrslitaviðureigninni með aðeins einum pinna 234 gegn 233 og réðust úrslitin í síðasta kasti Hlyns þegar hann náði 9 keilum og sigraði þar með keppnina með aðeins einum pinna. Í undanúrslitum mættu þeir Svíanum Mattias Möller sem leiddi forkeppnina og Jóni Inga Ragnarssyni úr Keilufélagi Reykjavíkur. Jón Ingi varð í 3. sæti en Möller hafnaði í því 4. Mattias gerði sér lítið fyrir og tók 7 – 10 glennuna í útsendingunni og má sjá það hér.

Efst kvenna varð Daria Pajak frá Pólandi en hún datt út í 8 manna úrslitum á móti Mattias Möller. Daria var ein þriggja atvinnu kvennkeilara sem tóku þátt á mótinu í ár. Efst íslenskra kvenna varð Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR en hún komst í 16. manna úrslitum en datt þar út fyrir Dananum Jesper Agerbo en Jesper, sem sigraði mótið í fyrra, mætti síðan Hlyni Erni í 8 manna úrslitum. Hlynur og Jesper áttust einnig við í fyrra í 4 manna úrslitum og hafði þá Jesper betur en nú var komið að Hlyni að fara alla leið.

Alls tóku hátt í 100 keilarar þátt á mótinu í ár. Þrír fullkomnir leikir náðust á mótinu í ár og að auki féllu nokkur Íslandsmet. Úrslit má sjá hér.

Íslandsmet mótsin urðu þessi:

  • Arnar Davíð Jónsson KFR 300 leikur
  • Skúli Freyr Sigurðsson KFR 300 leikur
  • Dagný Edda Þórisdóttir KFR Íslandsmet í 5 leikjum
  • Hafdís Eva Laufdal Pétursdóttir ÍR í 1 leik 3. flokki stúlkna
  • Sara Bryndís Sverrisdóttir ÍR Íslandsmet í 1 leik 3. flokki stúlkna (sló metið að ofan um 4 pinna)
  • Matthías Leó Sigurðsson ÍA Íslandsmet í 6 leikjum 4. flokki pilta
  • Mikael Aron Vilhelmsson KFR Íslandsmet í 2, 3, 4 og 5 leikjum 4. flokki pilta

Daninn og góðvinur okkar Jesper Agerbo kom með 28 manna hóp með sér frá SAS klúbbnum í Kaupmannahöfn og settu þau sterkan svip á mótið í ár, líflegur hópur þar á ferð. Einnig komu þrjár PWBA konur til landsins til að taka þátt í mótinu þær Danielle McEwan frá Bandaríkjunum, Tannya Roumimper frá Indónesíu og áðurnefnd Daria Pajak frá Pólandi. Að sjálfsögðu kom fóstursonur Íslands Svíinn Mattias Möller enn einu sinni til okkar og nú eins og 2017 komst hann alla leið í undanúrslit. Úrslit mótsins voru svo sýnd í beinni útsendingu á aðalrás RÚV undir lýsingu ÍR-ingsins Harðar I Jóhannssonar og má sjá útsendinguna á vef RÚV.

Keiludeild ÍR þakkar þátttakendum fyrir stórglæsilegt mót. Sérstakar þakkir fá þeir sjálfboðaliðar sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd mótsins en þetta er alls ekki hægt nema með góðri aðstoð sjálfboðaliða. Einnig er vert að þakka vélamönnum Egilshallar undir stjórn Stanko en mótið gekk einstaklega vel og eiga þeir miklar þakkir skyldar fyrir framlag sitt.

Næsta RIG mót er dagsett 30. janúar til 2. febrúar 2020. Hvað gerist þá verður bara spennandi að sjá. Ljóst er að erlendur áhugi jókst enn frekar í ár á þessu móti.

RIG2019_Top4

X