Shito Ryu karate

Shito Ryu stílinn er kenndur hjá karatedeild ÍR. Hann er einn af fjórum mismunandi karatestílum sem eru viðurkenndir í Japan og af Alþjóða karatesambandinu (WKF). Hinir þrír eru Goju Ryu, Shotokan og Wado Ryu, þeir eru allir iðkaðir á Íslandi.

Karate hentar iðkendum á öllum aldri. Íþróttin er í senn líkamsrækt, bardagaíþrótt, sjálfsvörn og lífsstíll. Karate er samsett orð úr kara og te sem þýðir tóm hönd. Nafnið er samheiti yfir ýmis afbrigði af vopnlausum japönskum sjálfsvarnaríþróttum, byggðar á fornum kínverskum bardagalistum, sem kenndar eru við bæi eða borgir í Japan. Í öllum karatestílum er íþróttinni skipt í þrjá hluta: kihon, kumite og kata.

Kihon eru grunnæfingar, styrktaræfingar, grunnhreyfingar, spörk, högg og varnir.

Kumite er frjáls bardagi milli tveggja iðkenda.

Kata eru grunnæfingar eftir fyrirfram gefnum reglum og bardagi við ímyndaðan andstæðing.

Kata og kumite eru sjálfstæðar keppnisgreinar.

Í Shito Ryu karate eru fimm grundvallarreglur:

  1. Gerðu alltaf þitt besta
  2. Vertu kurteis og sýndu mannasiði
  3. Leitastu stöðugt við að bæta þig og vaxa.
  4. Vertu skynsamur og hagsýnn
  5. Finndu sátt og frið daglega.

Shito Ryu þykir miðlungsharður og listrænn karatestíll.

Saga Shito Ryu í stuttu máli.

Höfundur Shito Ryu er Kenwa Mabuni frá bænum Shuri á eyjunni Okinawa í Japan (1889-1952). Mabuni byrjaði ungur að nema Shuri-te undir leiðsögn hins virta AnkohYasutsune Itosu. Síðar nam hann Naha-te undir leiðsögn Kanryo Higashionna. Þeir tveir voru helstu áhrifavaldar í þróun á stíl Mabuni. Shito-Ryu stíllinn er að mestu samsettur úr Shuri-, Naha- og Tomari-te. Þótt hann hafi sett saman aðferðir og kenningar frá þessum fyrrum kennurum sínum, mun Mabuni einnig hafa leitað áhrifa og þekkingu frá nokkrum öðrum karatemeisturum, þar á meðal Seisho Aragaki, Tawada Shimboku, Sueyoshi Jino og Wu Xianhui.

Mabuni var goðsögn fyrir þekkingu sína á kötum og ritaði fjölda bóka um efnið. Það er því varla tilviljun að kötur eru langflestar í Shito Ryu stílnum á keppnislista (WKF) eða 43 talsins, á meðan það eru 10 kötur í Goju Ryu, 21 kata í Shotokan og 10 kötur í Wado Ryu. Um 1920, var Mabuni talin meðal fremstu áhrifamanna í Okinawa kata og var mjög  eftirsóttur kennari. Á hans efri árum, þróaði hann fjölda formlegra kata, eins og Aoyagi, sem var sérstaklega hönnuð fyrir sjálfsvörn kvenna.

Í Okinawa starfaði hann sem lögreglumaður og kenndi öðrum starfsbræðrum sínum karate. Að undirlagi fyrsta kennara hans, Itosu, byrjaði hann að gera karate aðgengilegt fyrir almenning með því að hefja kennslu í hinum ýmsu menntaskólum í Shuri og Naha. Um 1929 flutti Mabuni síðan til Osaka á meginlandi Japans og varð karatekennari að aðalstarfi. Hann opnaði fjölda skóla á Osaka svæðinu og ennþá er fjölmennasti hópur af Shito-Ryu sérfræðingum í Japan þar.

Mabuni og margir samferðamenn hans í bardagalistum, meðal annars höfundur Shotokan stílsins Gichen Funakoshi (1868-1957),  unnu ötullega að því að kenna, skrá og miðla þekkingu á þessum fornu og vopnlausu bardagalistum sem voru fullar af hefðum og sögu og urðu til þess að auka vinsældir karate og stuðla að útbreiðslu þess um allan heim.

                                                                                                                                                                                                                                      Samantekt: Hrafnhildur Úlfarsdóttir

 

 

 

 

Styrktaraðilar ÍR

X