Hólmsteinn Sigurðsson fyrrum formaður ÍR er látinn

Hólmsteinn Sigurðsson, fyrrum formaður ÍR lést miðvikudaginn 27. júlí sl. Hólmsteinn, sem var á níræðisaldri, var sannur ÍR-ingur og alla tíð dyggur stuðningsmaður.

Hann hóf feril sinn í íþróttum hjá handknattleiksdeild Vals og lék með meistaraflokki liðsins árin 1956 og 1957. Þá hóf hann að æfa körfubolta og lék með meistaraflokki ÍR í körfuknattleik frá 1959-1972 ásamt því að vera liðsstjóri árin 1973-1977. Á þessu tímabili varð hann margfaldur Íslandsmeistari með ÍR og lykilmaður í öllu starfi deildarinnar.

Hólmsteinn var öflugur leikmaður á báðum endum vallarins. Hann lék 17 landsleiki fyrir Íslands hönd árin 1961-1966. Að loknum spilaferlinum tók hann að sér dómgæslu og var virkur dómari um árabil.

Þá vann hann óeigingjarnt starf í þágu Körfuknattleiks-sambands Íslands (KKÍ) þar sem hann var kosinn í stjórn árið 1968 og sinnti formennsku árin 1969-1973.

Hann varð síðar formaður aðalstjórnar ÍR, árin 1986-1993.
Það var mikil uppbygging á ÍR svæðinu í formennsku tíð Hólmsteins. Hann gekk m.a. í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeim lánum sem ÍR tók til að flýta fyrir mikilli uppbyggingu á ÍR svæðinu á níunda aratugnum m.a. vegna grasvallar ÍR. Grasvöllurinn rúmaði þrjá knattspyrnuvelli og var 21.000 fmað stærð en hluti hans fór síðar undir gervigras völl ÍR

Hólmsteinn var manna duglegastur að mæta á körfuboltaleiki í Hellinum til að styðja liðið allt til síðasta dags. Hann var jafnframt virkur félagi í formannafélagi ÍR og sýndi þar stuðning sinn og var ávallt áhugasamur um starf félagsins. Það þarf vart að fjölyrða að missir félagsins af þessum mikla höfðingja er mikill.  Hólmsteinn var gerður að Heiðarsfélaga ÍR árið 2007 fyrir mikið og óeigingjarnt starf sitt fyrir félagið.

Íþróttafélag Reykjavíkur vottar eiginkonu Hólmsteins, Guðnýju Pétursdóttur, börnunum Pétri Hólmsteinssyni og Eddu S. Hólmsteinsdóttur og barnabarninu Heimi Skúla Guðmundssyni innilegustu samúð vegna fráfalls Hólmsteins.

Útför Hólmsteins fer fram frá Seljakirkju fimmtudaginn 18. ágúst klukkan 13.

 

X