Í síðustu viku hófust framkvæmdir við lokaáfanga frjálsíþróttavallar ÍR sem fyrirhugað er að ljúki seinni part sumars eða í haust. Fyrirtækið Jarðval sf sér um framkvæmdina sem er lokafrágangur lagna, malbikun undir hlaupa- og stökkbrautir og lagning gerviefnis. Framkvæmdir við þjónustuhús við frjálsíþróttavöllinn eru einnig hafnar og um þær framkvæmdir sér fyrirtækið Geislasteinn ehf. Þjónustuhúsið verður um 400 fermetrar að stærð og að hluta til á tveimur hæðum. Í húsinu verða geymslur fyrir stökkdýnur, grindur og annan búnað, salerni, aðstaða fyrir mótahald, vinnuaðstaða fyrir þjálfara ásamt véla og tæknirými. Á þaki hússins og til hliðar við það verður áhorfendaaðstaða. Áætluð verklok eru vorið 2019.