Erna Sóley og fjöldi landsliðsfólks keppir á 28. Stórmóti ÍR í frjálsíþróttum um helgina

Um helgina fer Stórmót ÍR í frjálsíþróttum fram í Laugardalshöll. Keppendur koma víðsvegar að af landinu auk keppenda frá Færeyjum, Írlandi og Bretlandi. Mótið fer nú fram í 28. skipti og eru rúmlega 600 þátttakendur skráðir til leiks í aldursflokkum frá 8 ára og yngri upp í karla og kvennaflokk.

Stórmót ÍR er svokallað Global Calendar mót sem telur til stiga í stigakerfi Alþjóða Frjálsíþróttasambandsins. Ólympíufarinn Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir á mótinu auk fjölda landsliðsfólks sem keppir að því að vinna sér inn stig í alþjóðlega stigakerfinu ásamt því að keppa um sæti á Reykjavíkurleikunum(RIG) sem fram fara 27. janúar nk.

Heiðursgestur mótsins verður Vigfús Þorsteinsson formaður aðalstjórnar ÍR en hann mun ávarpa keppendur og gesti og afhenda verðlaun til yngstu keppendanna á laugardagsmorguninn.

Framkvæmdaraðili mótsins er Frjálsíþróttadeild ÍR en til að framkvæma frjálsíþróttamóta af þessari stærðargráðu þarf um 100 dómara og starfsmenn til að mótið geti gengið greiðlega fyrir sig.

Stórmótið hefst kl. 9:00 bæði laugardag og sunnudag. Frír aðgangur. Nánari upplýsingar um mótið: https://ir.is/stormot/

Þráinn Hafsteinsson
Mótsstjóri s. 8631700

X