Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona og Matthías Orri Sigurðsson körfuknattleiksmaður voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl ársins 2017 hjá ÍR á verðlaunahátíð félagsins sem haldin var í gærkvöld.
Hver deild innan ÍR tilnefndi íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2017 og úr þeim hópi valdi aðalstjórn þau Anítu og Matthías Orra.
Aníta vann m.a. til bornsverðlauna á EM innanhúss á árinu og bætti Íslandsmetin í 800m og 1500m hlaupum. Matthías Orri leiðir lið ÍR í toppbaráttu Dominosdeildarinnar í körfuknattleik um þessar mundir og lék sína fyrstu karlalandsleiki á árinu.
Matthías Orri og Aníta voru valin úr hópi um 2700 skráðra iðkenda sem stunduðu 10 mismunandi íþróttagreinar undir merkjum ÍR á árinu 2017.
Þeir sem tilnefndir voru frá deildum ÍR:
Frjálsíþróttakona ÍR 2017: Aníta Hinrikdsdóttir
Frjálsíþróttakarl ÍR 2017: Guðni Valur Guðnason
Handknattleikskona ÍR 2017: Sólveig Lára Kristjánsdóttir
Handknattleikskarl ÍR 2017: Bergvin Þór Gíslason
Júdókona ÍR 2017: Aleksandra Lis
Júdókarl ÍR 2017: Jakub Marek Tumowski
Karatekona ÍR 2017: Kamila Buraczewska
Karatekarl ÍR 2017: Aron Anh Ky Huynh
Keilukona ÍR 2017: Linda Hrönn Magnúsdóttir
Keilukarl ÍR 2017: Andrés Páll Júlíusson
Knattspyrnukona ÍR 2017: Mónika Hlíf Sigurhjartard.
Knattspyrnukarl ÍR 2017: Andri Jónasson
Körfuknattleikskona ÍR 2017: Hanna Þráinsdóttir
Körfuknattleikskarl ÍR 2017: Matthías Orri Sigurðsson
Skíðakona ÍR 2017: Helga María Vilhjálmsd.
Skíðakarl ÍR 2017: Kristinn Logi Auðunsson
Taekwondokona ÍR 2017: Ibtisam El Bouazzati
Taekowondokarl ÍR 2017: Kriel Eric Jan Luzara Renegado
Umsagnir um tilnefndar íþróttakonur deilda:
Frjálsíþróttir:
Aníta Hinriksdóttir
Aníta byrjaði árið með Íslandsmeti í 800 m hlaupi innanhúss á RIG í janúar 2:01,18 og á Evrópumeistaramótinu i Belgrade í mars vann hún til bronsverðlauna í 800 m. Íslandmet í 1500 m hlaupi leit dagsins ljós í byrjun júní er Aníta hljóp á 4:06,43 mín. Aníta keppti á tveimur Demantamótum nokkrum dögum seinna. Setti Íslandsmet 2:00,05 mín í Osló og hljóp einnig undir gamal metinu í Stokkhólmi 3 dögum seinna. Hún keppti á EMU23 í júlí og vann til silfurverðlauna í 800 m hlaupi og var einn þriggja keppenda Íslands á Heimsmeistaramótinu í London. Aníta er frábær fyrirmynd yngri iðkenda, vinnusöm, kappsöm og lítillát.
Handknattleikur:
Sólveig Lára Kristjánsdóttir
Sólveig Lára Kristjánsdóttir er uppalinn leikmaður í kvennastarfi ÍR handbolta. Hún kemur upp úr sterkum árgangi stúlkna fæddar 1996 sem hafa leitt uppbyggingu kvenna handboltans í þessari atrennu og gera það vel. Sólveig er gríðarlega sterkur leikmaður sem skorar mikið af mörkum og spilar miðjustöðu í vörn. Sólveig hefur verið ósérhlífin og unnið vel fyrir félagið bæði innan liðsins og í fjáröflunum fyrir deildina. Gleði og gamansemi einkenna fas hennar sem smitar út frá sér til liðsfélaga og þeirra sem með henni vinna í kvennahandboltanum.
Júdó:
Aleksandra Lis
Stærstu sigrar Aleksöndru á þessu ári eru silfurverðlaun á alþjóðaleikum ungmenna sem fóru fram í Kaunas í Litháen í sumar. Einnig keppti hún á mótinu Södra Open í Svíþjóð og vann hún silfurverðlaun í U18 ára og bronsverðlaun í opnum flokki í U21 en hún er aðeins 15 ára. Auk þess að vera mikill keppnismaður er Aleksandra farin að aðstoða við þjálfun yngri iðkenda og er góð fyrirmynd þeirra. Þrátt fyrir ungan aldur er Alksandra orðin afreksmaður á landsmælikvarða í íþrótt sinni
Karate:
Kamila Buraczewska
Kamila komst í úrslit á Íslandsmeistaramóti unglinga og varð Íslandsmeistari 15 ára stúlkna í kata 2017. Þetta var hennar þriðji Íslandsmeistaratitill í röð í kata. Á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite lenti Kamila í þriðja sæti í flokki stúlkna 14-15 ára. Í öðrum af þremur beltaprófum ársins á vegum karatedeildar ÍR náði Kamila þeim áfanga að fá svarta beltið í karate. Hún er eina konan meðal iðkenda karatedeildar ÍR með svart belti í karate. Kamila er góð fyrirmynd yngri iðkenda, hún er hjálpsöm, jákvæð og prúður íþróttamaður.
Keila:
Linda Hrönn Magnúsdóttir
Annað árið í röð er það Linda Hrönn Magnúsdóttir úr ÍR TT sem er valin kvennkeilari ársins. Linda varð efst ÍR kvenna á Íslandsmóti einstaklinga en þar náði hún 6. sæti. Hún varð í 2. sæti á Íslandsmóti liða nú í vor með liði sínu ÍR TT og hún varð í 4. sæti á Íslandsmóti para með Stefáni Claessen úr ÍR nú í haust. Linda hefur verið í afrekshópi Keilusambandsins og keppti nú síðast á HM þar sem hún spilaði besta leik íslensku keppendanna en þar náði hún 243 leik. Linda hefur auk þess tekið þátt í mótum erlendis og staðið sig með ágætum á þeim.
Knattspyrna:
Mónika Hlíf Sigurhjartardóttir
Monika Hlíf er lykilmaður 1.deildarliðs ÍR í meistaraflokki kvenna. Mónika er öflugur miðjumaður sem hefur öðlast óvenju mikinn leikskilning miðað við 19 ára leikmann sem var að leika sitt fyrsta leiktímabil í meistaraflokksliði í öflugri deild. Hún hefur fjölbreytt vopnabúr sem knattspyrnumaður, lék bæði úti á köntunum og inni á miðju og náði góðum tökum á bæði varnar- og sóknarleik en hún lék alla 20 leiki ÍR í sumar og skoraði í þeim fjögur mörk. Sannkallaður lykilmaður liðs ÍR sem náði í 27 stig í nýrri og öflugri 1.deild kvenna.
Körfuknattleikur:
Hanna Þráinsdóttir
Hanna hefur verið leiðandi í endurreisn meistaraflokks kvenna í körfubolta hjá ÍR og er fyrirliði liðsins. Þegar leiktíðin er hálfnuð er Hanna leiðandi í öllum helstu tölfræðiþáttum s.s. stigaskori, fráköstum, framlagi og leiknum mínútum í meistaraflokki. Hún er góð fyrirmynd yngri iðkenda og leggur sitt af mörkum af krafti sem þjálfari tveggja yngri flokka hjá deildinni. Hanna er harðdugleg íþróttakona, leiðtogi liðs síns innan vallar sem utan og frábær fulltrúi nýstofnaðs meistaraflokks kvenna í körfubolta.
Skíði:
Helga María Vilhjálmsdóttir
Helga María hóf skíðaveturinn 2017 af krafti eftir að hafa verið frá keppni í nokkur tíma vegna meiðsla. Hún tryggðir sér rétt til keppni í á HM í St.Moritz í febrúar 2017 en varð því miður fyrir því óláni á æfingu fyrir mótið að handarbrotna og varð því að draga sig úr keppni. Helga María mætti svo á Skíðamót íslands í lok mars og tók Íslandsmeistaratiltil í svigi en endaði önnur í stórsvigi. Helga María stórbætti fis – punkta stöðu sína í risasvigi og var komin í hóp 200 bestu skíðakvenna í heiminum í þeirri grein og var búin að tryggja sér keppnisrétt á Ólymíuleikunum sem fram fara í Kóreu í febrúar 2018. Af þátttöku hennar þar verður ekki því hún fótbrotnaði á æfingu í Noregi í haust. Í öllum þessum meiðslum hefur Helga María sannað að hún er frábær íþróttakona sem lætur ekki mótlæti stoppa sig.
Taekwondo:
Ibtisam El Bouazzati
Á árinu 2017 hélt hún uppteknum hætti með frábærum árangri. Ibtisam tók þátt í nær öllum mótum ársins og komst á pall í hvert skipti, í báðum greinum, þar með talið silfur á Íslandsmeistaramótinu í bardaga, gull í formi hópa og gull í bardaga á bikarmótum. Ibtisam æfir með landsliðinu í formi en hún var fyrst valin í það 2016 og heldur sínu sæti þar. Sem sagt frábært ár og árangur hennar 2016 var greinilega engin tilviljun.
Umsagnir um tilnefnda íþróttakarla deilda:
Frjálsíþróttir:
Guðni Valur Guðnason
Guðni Valur átti gott ár þegar á heildina er litið þó hann hafi ekki náð aðalmarkmiðinu sem var að ná lágmarki á HM. Guðni glímdi við meiðsli á uppbyggingartímabilinu sem setti strik í reikninginn. Hann náði þó að vinna sig upp úr meiðslunum og keppti hann á yfir 40 mótum á árinu og kastaði lengst 60.94metra sem gefur 1078 IAAF stig. Stærstu mótin hans á árinu voru EM U23 þar sem hann náði 5. sæti. Hann keppti einnig með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í San Maríno þar sem hann sigraði með góðum árangri og á Evrópubikarkeppni landsliða í Ísrael þar sem hann náði 6. sæti og var með bestan árangur ÍR karla á mótinu. Guðni Valur æfir af kappi og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Það þarf ekki að hvetja hann, frekar að letja og passa uppá að hann æfi sig ekki í þrot.
Handknattleikur:
Bergvin Þór Gíslason
Bergvin hefur gengt lykilhlutverki í Olís deildarliði ÍR í vetur og fengið mun stærra hlutverk heldur en honum var ætlað í vetur í kjölfar mikilla meiðsla annarra leikmanna liðsins. Hann hefur leyst þetta hlutverk gríðarlega vel og er markahæðsti leikmaður liðsins ásamt því að hafa leyst nýja stöðu í vörn. Hann hefur verið yngri leikmönnum og einnig leikmönnum yngri flokka ÍR góð fyrirmynd og má ÍR vera stolt af því að vera með leikmann eins og hann innan sinna vébanda.
Júdó:
Jakub Marek Tumowski
Þó að Jakub hafi aðeins æft í rúm 2 ár hefur hann sýnt miklar framfarir í íþróttinni. Hann er sífellt að koma á óvart á mótum með því að sigra keppinauta sem eru taldir vera mikið betri. Skiptir engu máli þó keppinautar Jakubs séu mikið stærri og sterkari og búnir að æfa mikið lengur en hann. Árangur Jakubs hefur vakið athygli forsvarsmanna júdóíþróttarinnar. Helstu afrek Jakubs eru bronsverðlaun á Södra Open mótinu í Svíþjóð í síðasta mánuði þar sem hann kom verulega á óvart eins og svo oft áður. Árangur Jakubs byggir á góðri ástundun og miklu keppnisskapi.
Karate:
Aron Anh Ky Huynh
Á fyrrihluta ársins 2017 keppti Aron bæði í unglinga- og fullorðinsflokki ásamt því að vera jafnvígur í báðum keppnisgreinum karate, kata og kumite. Hann komst í úrslit í kata fullorðinna og lenti í 2. Sæti á Reykjavík International Games. Á Íslandsmeistaramóti í kata landaði Aron sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í flokki fullorðinna. Hann varð bikarmeistari karla í karate annað árið í röð. Aron var valinn í íslenska landsliðið í karate 2017 og keppti á Swedish Kata Throphy í Stokkhólmi og vann til silfurverðlauna. Á fjórðu smáþjóðleikum í karate sem haldnir voru í Andorra varð Aron fyrstur Íslendinga til að verða smáþjóðameistari í kata unglinga. Á Nordic Championship 2017 lenti Aron í 3.sæti í kata. Aron er einstaklega prúður og einbeittur íþróttamaður. Hann er áhugasamur um karateíþróttina og þjálfar yngri iðkendur í karate á vegum karatedeildar ÍR.
Keila:
Andrés Páll Júlíusson
Andrés Páll hóf árið á því að setja tvö Íslandsmet í keilunni. Náði hann fullkomnum leik eða 300 pinnum á RIG mótinu sem Keiludeild ÍR stóð fyrir. Bætti hann um betur og setti Íslandsmet í tveim leikjum en hann náði 579 pinnum eða 289,5 í meðaltal og má búast við því að það met standi í nokkurn tíma. Andrés náði síðan í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga um miðjan febrúar og var hársbreidd frá titlinum. Andrés varð síðan bæði Deildarmeistari og svo Íslandsmeistari með liði sínu ÍR KLS á árinu. Andrés keppti á mjög sterku móti í Berlín í mars sem var hluti af Evróputúrnum í ár. Náði hann þar einum besta árangri íslenskra keilara með því að komast í gegn um 1. niðurskurðinn á mótinu og var mjög nálægt efstu 8 sem héldu áfram. Spilaði hann 1.457 í 6 leikjum forkeppninnar eða 243 í meðaltal.
Knattspyrna:
Andri Jónasson.
Andri var lykilmaður í liði ÍR í Inkasso-deildinni sumarið 2017. Andri hefur leikið með ÍR undanfarin ár en lék í vor í nýju hlutverki sem hægri bakvörður eftir að hafa verið framherji undanfarin misseri. Andri náði strax góðum tökum á leikstöðunni, bæði var hann mjög öflugur í sínu varnarhlutverki en hlaup hans upp hægri vænginn urðu mikilvægur hluti sóknarleiks liðsins. Hann lék 25 af 26 leikjum félagsins í deild og bikar og náði þeim frábæra árangri að skora 6 mörk þó varnarleikurinn hafi verið hans stærsta hlutverk síðastliðið sumar. Andri var í lok tímabils kjörinn leikmaður ársins af samherjum sínum innan liðsins.
Körfuknattleikur:
Matthías Orri Sigurðarson
Matthías Orri leiddi meistaraflokkslið ÍR í 8 liða úrslit Dóminósdeildar karla í körfubolta í fyrsta skipti í áraraðir s.l. vor. Hann hefur síðan verið einn af albestu leikmönnum Dómínosdeildar karla á yfirstandandi leiktíð og leitt ÍR liðið til bestu byrjunar á leiktíð í mjög langan tíma, en liðið er sem stendur í efsta sæti ásamt þremur öðrum liðum. Matthísa Orri náði síðan þeim merka áfanga að leika sína fyrstu leiki með karlalandsliði Íslands í körfubolta á Smáþjóðleikunum í vor og varð um leið fyrsti ÍR-ingurinn í all mörg ár til að komast í landslið Íslands í körubolta. Matthías er íþróttamaður frábær fyrirmynd yngri iðkenda og góður félagi innan vallar sem utan.
Skíði:
Kristinn Logi Auðunsson
Kristinn var valin til þátttöku á Heimsmeistaramótinu í St. Moritz í Sviss í febrúar 2017 og tók þátt í undankeppni bæði í svigi og stórsvigi. Kristinn tók þátt í háskólamótaröðinni í Bandaríkjunum og í fjölda alþjóðlegra móta í Bandaríkjunum síðastliðinn vetur með ágætum árangri en Kristinn stundar nám við Colorado Mountain College þar í landi. Kristinn hefur bætt punktastöðu sína á heimslistum bæði í svigi og stórsvigi jafnt og þétt og fest sér sæti í B landsliði Íslands. Kristinn er yngri iðkendum góð fyrirmynd en áhugi hans á íþróttinni hefur vaxið jafnt og þétt frá unglingsárunum sem ætti að vera ungum skíðamönnum hvatning.
Taekwondo:
Kriel Eric Jan Luzara Renegado
Kriel hefur lengi, líklega frá fyrstu æfingu, verið mjög efnilegur taekwondo iðkandi. Á árinu 2017 komst Kriel á pall á öllum mótum sem hann tók þátt í. Hann hlaut meðal annars gull í Bardaga á Reykjavíkurleikunum og gull í formi hópa bikarmóti. Kriel komst einnig í æfingahóp landsliðsins og á hann eflaust eftir að sýna miklar framfarir í kjölfar þess að æfa með þeim bestu á landinu. Það er vert að nefna þeir bardagar sem að hann náði ekki að vinna á mótum ársins voru allir gegn núverandi landsliðsmönnum sem að hafa allir keppt erlendis, sumir á stórmótum eins og EM og HM unglinga.