Hlynur og Arnar að standa sig í 5km

Arnar Pétursson og Hlynur Andrésson úr ÍR kepptu báðir í 5km hlaupi um helgina. Hlynur keppti í Bandaríkjunu á 200m braut innanhúss en Arnar keppti í Dublin í götuhlaupi.

Hlynur  hafnaði í 7. Sæti á sterku innanhússmóti í Indiana í Bandaríkjunum en Hlynur keppir fyrir Eastern Michigan háskólann. Hann hljóp á 14:11.10 mín sem er 3. besti tími sem Íslendingur hefur hlaupið á innanhúss en Hlynur á sjálfur metið 14:00,83 mín frá því í aprí fyrr á þessu ári. Frábær árangur hjá Hlyn og óskum við honum innilega til hamingju með árangurinn. hér má sjá frétt af heimasíðu skólans.

Arnar Pétursson keppti einnig um helgina og stóð sig með prýði. Hann bar sigur úr bítum í sterku 5 km götuhlaupi í Aware í Dublin. Arnar kom í mark á sínum besta tíma frá upphafi 15.18 mín sem er bæting um 2 sek síðan í sumar sem segir mikið um gott form Arnars, en þessi árstími núna er að jafnaði nokkuð þungur æfinglega séð. Þessi tími er jafnframt annar besti tími Íslendings frá upphafi í þessari vegalengd á götu en aðeins Kári Steinn Karlsson ÍR (þá Breiðabilki) hefur hlaupið hraðar, 14:47 mín í Víðavangshlaupi ÍR í apríl 2012. Tími Arnars, væri hann hlaupinn á braut, gæfi 757 IAAF stig sem er sambærilegt og 32:29 mín í 10000m á braut en Arnar á best 15:27,91 mín í 5000km á braut. Sem sagt flottur árangur hjá Arnari og glæsilegt að sigra en 545 karlar luku hlaupinu.  Ívar Jósafatsson keppti einnig í þessu sama hlaupi, hafnaði í 2. sæti á tímanum 17.22 mín sem er nýtt Íslandsmet í flokki 50-55 ára. Þeir félagar eru góðir fulltrúar Íslands á erlendri grundu og óskum við þeim til hamingju.

Fríða Rún tók saman.

X