Laugardagur 29. júlí
Hafsteinn Óskarsson ÍR keppti í 1500m í flokki 55 ára. Hann hljóp í 2. riðli en til að komast áfram þurfti að ná öðru af tveimur fyrstu sætunum í riðlinum eða 10 bestu tímum þar á eftir. Hafsteinn tryggði sig öruggt inn í úrslitin með því að sigra riðilinn á 4:48.49 mín sem var 6. besti tíminn inn í úrslit.
Ólafur Þorbjörnsson Breiðabliki sem æfir með Mörthu hópi komst áfram í úrslit 1500 m hlaups 35 ára, hann bætti sinn besta tíma frá MÍ á Selfossi, úr 4:20 mín í 4:17,47 mín en Óli hljóp í seinni riðli undanrásanna en 25 hlauparar kepptu í undanrásum. Hann endaði með 14. besta tímann en 16 komust áfram í úrstli. Frábært að ná 2 keppendum inn í úrslit 1500m hlaupsins.
Halldór Matthíasson keppti í kringlukasti í flokki 65 ára. Hann var í 4. sæti í sinni kastgrúppu með kasti upp á 33.68m og komst ekki áfram í 12 manna úrslit og hafnaði í 16. sæti af 22 keppendum. Hann hefur lokið keppni á mótinu
Aðstæður í Aarhus eru ekkert sérstakar, rigning eða jafnvel úrhellir á köflum, nokkur vindur en sólin hefur ekki mikið látið sjá sig. Sem dæmi um sviptingarnar þá var grenjandi rigning um 1 klst áður en Óli hljóp en glampandi sól og sterkur vindur þegar hlaupið fór fram. Hafsteinn fékk hins vegar nokkuð íslenskar aðstæður nokkurn vind og skýjað.
Fríða Rún tók saman