Frábær helgi er að baki hjá íslensku frjálsíþróttafólki. Ungmenna stórmótið Bauhaus Junioren gala gaf af sér glæsileg afrek þegar Íslandmetið í 100m kvenna var slegið tvíslegið af ÍR-ingnum Tiönu Ósk Whitworth sem hljóp á 11.57 sek, bæting um 3/100 sek, og Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur, sem hljóp á 11,56 sek 2 klst síðar. Í því hlaupi hljóp Tiana hljóp aftur á 11.57 sek sem er gríðarlega góður árangur. Báðar áttu þær best áður 11.63 sek en gamla metið, 11.60 sek, var í eigu Sunnu Gestsdóttur, sett árið 2004 þegar þær stöllur voru 3 og 4 ára. Guðbjörg og Tiana urðu í 1. og 2. sæti í hlaupinu. Guðbjörg er nú í 4. – 6. sæti á Evrópulistanum og Tiana í 7. – 8. sæti U20. Guðbjörg Jóna hljóp síðan feikigott 200m hlaup, varð 2. á tímanum 23.51 sek sem er annar besti tími íslenskrar konu, aðeins Íslandsmet hennar sjálfrar frá MÍ 15-22 ára fyrr í mánuðinum er betra, 23.45 sek. Tiana bætti sig í 200m, hljóp á 23.79 sek en átti best 23.82 og varð í 5. sæti og á engin íslensk kona, önnur en Guðbjörg, hraðari tíma í greininni. Guðbjörg er nú í 4. – 5. sæti á Evrópulistanum í 200m og Tiana í 13. sæti.
Þær Tiana og Guðbjörg voru mikilvægir hlekkir í 4 x 100m boðhlaupssveitinni sem setti nýtt aldursflokkamet í undanrásunum, 45,75 sek, í flokki 18-19 ára og 20-22 ára. Þessi tími er þriðji besti 4 x 100m tími kvenna frá upphafi en Íslandsmetið í kvennaflokki er. 45,31 sek.
Erna Sóley Gunnarsdóttir átti frábæra kastseríu en fjögur af sex köstum hennar voru lengstu köst keppninnar. Hún kastaði lengst 15,90 metra og var mjög skammt frá sínu besta 16.13 m sem er aldursflokkamet 18-19 ára og 20-22 ára í greininni og annar besti árangurinn frá upphafi, aðeins Íslandsmetið er lengra 16.33 m. Erna er í 3. sæti á Evrópulistanum í sínum aldursflokki U20.
Dagbjartur Daði Jónsson keppti í spjótkasti í Svíþjóð um helgina á geysisterku kastmóti í Botnaryd þar sem mörg afrek hafa verið unnin. Dagbjartur gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu með kast upp á 78.30m og voru fjögur köst hans yfir 75m. Hann átti best fyrir 77.58 m síðan á Smáþjóðaleikunum og var þetta því nýtt met í flokki 20-22 ára. Hann er í 6. sæti á íslenskri afrekaskrá í spjótkasti og 8. á Evrópulistanum U23.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman