Aníta Hinriksdóttir setti í kvöld Íslandsmet í 1500 m hlaupi kvenna innanhúss þegar hún hljóp á 4:09,54 mín á alþjóðlegu móti í Düsseldorf í Þýskalandi. Aníta endaði í 5. sæti í hlaupinu, en Beatrice Chepkoech frá Keníu bar sigur úr býtum á tímanum 4:04;21. Fyrra metið, 4:19,31 átti Aníta sjálf, sett árið 2014.
Með tímanum náði Aníta lágmarki inn á heimsmeistaramótið innanhúss sem haldið verður í Birmingham í mars. Hún hafði áður náð lágmarki í 800 m hlaupi á HM.