Eftir æsi spennandi stigakeppni við FH-inga og frábæra frammistöðu tryggðu ÍR-ingar sér Íslandsmeistaratitil félagsliða í frjálsíþróttum innanhúss um helgina á Meistaramóti Íslands í greininni. Fyrstu þrjú sætin í hverri grein mótsins telja til stiga og keppt er í karlaflokki sem ÍR sigraði, kvennaflokki en þar varð ÍR í öðru sæti og Íslandsmeistari félagslið er það félag sem vinnur flest samanlögð stig í kvenna og karlaflokki. Lið ÍR hefur síðustu þrjú árin þurft að sætta sig við annað sætið en nú tókst að vinna titilinn með samstilltu átaki allra keppenda ÍR sem unnu 9 Íslandsmeistaratitla af 25 mögulegum eða fleiri en nokkurt annað félag. Fremst í flokki ÍR-inga fór hin unga og bráðefnilega Eir Chang Hlésdóttir sem sigraði í 60m, 200m og 400m hlaupum og var í sigursveit ÍR ásamt Ingibjörgu Sigurðardóttur, Helgu Lilju Maack og Helen Silfá Snorradóttur í 4x400m boðhlaupi. Í 200m hlaupinu setti Eir glæsilegt Íslandsmet þegar hún hljóp á 23,69 sek sem jafnframt var besta afrek mótsins samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu. Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet með 17,41m kasti í kúluvarpinu þar sem ÍR konur unnu fjórfaldan sigur. Hin unga Helga Lilja Maack sigraði í 800m hlaupinu á persónulegu meti 2:17,42 og varð þriðja í 1500m hlaupinu. Arnar Logi Brynjarsson varð annar 60m 7,01 og sigraði í 200m hlaupi 22,18 sek á persónulegum metum í báðum greinum. Í 200m hlaupinu varð félagi Arnars, Sæmundur Ólafsson annar í mark og sigraði svo í 400m hlaupinu 48,83 sek en þeir tveir ásamt Ívar Kristni Jasonarsyni sem varð annar í 400m hlaupinu og Iwo Egill Maccuga Árnason skipuðu sigur sveit ÍR í 4x400m boðhlaupinu sem var aðeins sekúndu frá Íslandsmetinu í greininni. Kristján Viktor Kristinsson sigraði í kúluvarpi karla með 14,73m kasti og hinn sextán ára gamli félagi hans Benedikt Gunnar Jónsson varð annar með 13,80m kasti sem er aldursflokkamet í flokki 16-17 ára.
ÍR-ingar hafa á undanförum þremur helgum tryggt sér Íslandsmeistaratitil félagsliða í frjálsíþróttum innanhúss í flokkum 11-14 ára, unglingaflokkum 15-22 ára og nú aðal titilinn, karla og kvenna samanlagt. Það eru liðin heil fjórtán ár frá því að ÍR-ingum tókst að vinna þessi þrjú mót á sama árinu. Úrslitin sýna mikinn uppgang í öllum þáttum frjálsíþróttastarfsins hjá ÍR og að þrotlausar æfingar íþróttafólksins og vinna þjálfaranna með þeim er greinilega að skila glæsilegum árangri. Áfram ÍR.



