Minningarorð: Einar Hafsteinsson fyrrverandi formaður Skíðadeildar graphic

Minningarorð: Einar Hafsteinsson fyrrverandi formaður Skíðadeildar

06.01.2023 | höf: Eiríkur Jensson

Einar Hafsteinsson fyrrverandi formaður skíðadeildar ÍR lést 63 ára að aldri 22. desember sl. Einar var formaður skíðadeildar ÍR 1993 – 2003 en hafði verið í stjórn skíðadeildarinnar áður en hann tók við formennsku. Í hans formannstíð voru áform um uppbyggingu Hellisheiðarvirkjunar komnar vel á veg og framtíð ÍR á svæðinu í óvissu. Hann lagði þó áherslu á að gera upp skálann, viðhalda eignum félagsins á svæðinu og lagfæringu á brekkum í Hamragili, til að tryggja að verðmæti deildarinnar ef og þegar kæmi að því að við þyrftum að víkja af svæðinu.
Einar tók að sér mótsstjórn á fjölda skíðamóta, var einstaklega nákvæmur og fær þegar kom að tímatöku og framkvæmd móta. Eftir að hann lauk formennsku var hann ávallt boðin og búin að mæta í fjallið og aðstoða hvort sem var við mótahald, viðhald skála eða önnur þarfaverk sem fylgja skíðaíþróttinni. Einnig fylgdist hann með starfi deildarinnar og árangri iðkenda. Einar var sæmdur gullmerki ÍR 2007. Eiginkona Einars, Ásrún Hauksdóttir er dyggur ÍR-ingur og börn þeirra þrjú þau Helga Rós, Guðrún Ósk og Haukur Magnús æfðu öll um árabil með ÍR og kepptu fyrir hönd félagsins.
Skíðadeild ÍR sendir Ásrúnu, börnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.
Útför Einars fer fram frá Kópavogskirkju kl. 15:00 í dag, föstudaginn 6. janúar.
X