Helga María og Kristinn Logi skíðamenn ÍR 2017

14.01.2018 | höf: Sigrún Inga Kristinsdóttir

helga_2018

Íþróttakona: Helga María Vilhjálmsdóttir.

Helga María hóf skíðaveturinn 2017 af krafti eftir að hafa verið frá keppni í nokkur tíma vegna meiðsla. Hún tók þátt í fjölda móta og sýndi að hún ætti fullt erindi á Heimsmeistaramótið í St.Moritz í febrúar 2017. Helga varð því miður fyrir því óláni á æfingu fyrir heimsmeistaramótið að handarbrotna og varð því að draga sig úr keppni og var frá æfingum um tíma vegna þessara meiðsla. Helga María mætti svo á Skíðamót íslands í lok mars og tók Íslandsmeistaratiltil í svigi en endaði önnur í stórsvigi. Eftir landsmótið fór hún til Noregs og tók þátt í nokkrum mótum þar með góðum árangri. Helga María stórbætti fis – punkta stöðu sína í risasvigi og var komin í hóp 200 bestu skíðakvenna í heiminum í þeirri grein. Hún var búin að tryggja sér keppnisrétt á Ólymíuleikunum sem fram fara í Kóreu núna í febrúar 2018. En ekki á af Helgu Maríu að ganga því hún fótbrotnaði á æfingu í Noregi nú í haust og verður því frá keppni í vetur. Í öllum þessum meiðslum hefur Helga María sannað að hún er frábær íþróttakona sem lætur ekki mótlæti stoppa sig og óskum við henni góðs bata og góðs gengis á komandi skíðamótum.

kla_2018

Íþróttamaður: Kristinn Logi Auðunsson.

Kristinn var valin til þátttöku á Heimsmeistaramótinu í St. Moritz í Sviss í febrúar 2017 og tók þátt í undankeppni bæði í svigi og stórsvigi. Kristinn tók þátt í háskólamótaröðinni í Bandaríkjunum og í fjölda alþjóðlegra móta í Bandaríkjunum síðastliðinn vetur með ágætum árangri en Kristinn stundar nám við Colorado Mountain College þar í landi. Kristinn hefur verið að bæta punktastöðu sína á heimslistum bæði í svigi og stórsvigi jafnt og þétt og fest sér sæti í B landsliði Íslands. Kristinn er yngri iðkendum góð fyrirmynd en áhugi hans á íþróttinni hefur vaxið jafnt og þétt frá unglingsárunum sem ætti að vera ungum skíðamönnum hvatning.

X