Auður Ólafsdóttir – minningarorð graphic

Auður Ólafsdóttir – minningarorð

26.11.2021 | höf: Eiríkur Jensson

Okkar trausti félagi Auður Ólafsdóttir er fallin frá. Félagar í skíðahreyfingunni eiga Auði margt að þakka. Hún vann fyrir hreyfinguna um árabil og ávallt tilbúin þegar til hennar var leitað. Hvort heldur sem það var að vinna við skíðamót, halda utan um skýrslur fyrir Skíðaráð Reykjavíkur eða rita þinggerðir Skíðasambandsins. Auður kunni manna best allar mótareglur, það var ekkert í starfsemi skíðahreyfingarinnar sem ekki var hægt að leita til hennar með.
Auður fór sem fararstjóri á ótal skíðamót. Það eru margir sem eiga góðar minningar um hana sem fararstjóra í upphafi Andrésarandarleikanna á Akureyri. Traust, hlý og hvetjandi, með reglurnar á hreinu, mundi alla brautartíma og fylgdist vel með hvernig öllum gekk.
Hún var góður skíðamaður, það var ekkert fum og fát þar sem hún var á ferð. Börnin hennar, Helga og Ólafur og börn þeirra kepptu á skíðum fyrir ÍR og náðu frábærum árangri. Stefán, eiginmaður Auðar hefur heldur ekki legið á liði sínu í ýmsum störfum fyrir Skíðadeild ÍR. Hafi þau þökk fyrir.
Fyrir félagsskap Skíðadeildar ÍR er ómetanlegt að hafa átt félaga innan sinna raða eins og Auði Ólafs., hún lagði að baki ómælda sjálfboðavinnu til fjölda ára. Það var gaman og gefandi að starfa með henni.
Fjölskyldu Auðar sendum við samúðarkveðjur með innilegu þakklæti fyrir allt það óeigingjarna starf sem hún lagði að baki fyrir ÍR.
f.h. Skíðadeildar ÍR
Auður Björg Sigurjónsdóttir
X