Íþróttafélag Reykjavíkur

Skíðafólk ÍR 2022

Nú um hátíðarnar voru afreksfólki veittar viðurkenningar hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur. Stefán Gíslason var útnefndur skíðakarl ÍR 2022 og Signý Sveinbjörnsdóttir var útnefnd skíðakona ÍR 2022. Skíðadeild ÍR óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.
Signý og Stefán áttu viðburðarríkt skíðaár, árið 2022. Signý hóf árið á því að keppa á HM unglinga í Kanada “með þeim bestu” og stóð hún sig mjög vel. Einnig keppti Signý á Ólympíuleikum æskunnar í Finnlandi í fyrravetur. Ógleymanleg upplifun og reynsla fyrir Signýju. Signý var krýnd bikarmeistari Skíðasambands Íslands í kvennaflokki í alpagreinum á Landsmóti sl. vor og Stefán stóð sig sömuleiðis vel á því móti og var meðal annars á palli í svigi í U18 ára flokknum.
Signý og Stefán æfa fyrir hönd skíðadeildar ÍR, með sameiginlegu skíðaliði Reykjavíkur og Breiðabliks. Æfingatímabilið fyrir veturinn 2022-2023 hófst í hitabylgju í ágúst í skíðahúsi í Hollandi. Í október var ferðinni heitið á Hintertux jökul í Austurríki þar sem þau æfðu við toppaðstæður. Í nóvember var farið í æfingaferð til Senales á Ítalíu, sömuleiðis mikið æfingagleði og toppaðstæður fyrir okkar fólk. Í desember var svo stefnan sett á skíðamót í Austurríki og Ítalíu og að þeim loknum var stutt jólafrí heima á Íslandi. Núna í lok árs dvelja þau svo með skíðaliðinu sínu í Ölpunum og er stefnan sett á fjöldan allan af skíðamótum í Austurríki og Ítalíu í kringum áramótin.
Auk þess að sinna íþrótt sinni leggja þau Stefán og Signý bæði stund á nám í Verslunarskóla Íslands og eiga þau bæði skilið mikið hrós fyrir dugnað og eljusemi í námi og þessari afreksíþrótt.
Meðfylgjandi eru myndir af þeim skíðagörpum. Önnur myndin er tekin á Landsmóti vorið 2022 þar sem þau Signý og Stefán eru hlaðin verðlaunum og svo fylgir ein “gömul og góð” af þeim vinum á Andrésar andarleikum 2018.
X