Keilufélög Reykjavíkur vilja komast inn á ÍR svæðið graphic

Keilufélög Reykjavíkur vilja komast inn á ÍR svæðið

13.03.2020 | höf: Svavar Einarsson

Þeir sem æfa og keppa í keilu vilja losna úr Egilshöllinni og komast í fyrirhugaða aðstöðu ÍR. ÍTR greiddi eigendum Egilshallar 32 milljónir í styrk á síðasta ári. Sá besti þurfti að flytja út vegna aðstöðuleysis.

Á síðasta ári fór ÍTR-styrkur upp á 32 milljónir í Keiluhöllina í Egilshöll. Upphæðin er trúlega litlu minni á þessu ári. Keilusambandi Íslands finnst gáfulegra að eyða þessum peningum í aðstöðu sem er á forsendum íþróttarinnar og tekjur renni þangað en ekki til einkaaðila.

Keilusamband Íslands hefur sent Reykjavíkurborg bréf til að þrýsta á borgina um að fá betri aðstöðu þar sem þetta kemur fram. Allir aðilar, sem stunda og keppa í keilu, skrifa undir bréfið. Óska aðilarnir, sem eru keiludeildir KR, ÍR og Aspar sem og Keilufélag Reykjavíkur og Keilusamband Íslands, eftir að koma upp aðstöðu í fyrirhugaðri uppbyggingu á ÍR-svæðinu. Er aðalstjórn ÍR fylgjandi þeirri hugmynd. Segir í bréfinu að þátttakendum í félögunum fari fækkandi þar sem komin sé afskaplega mikil þreyta í þá sem stunda íþróttina vegna aðstöðuleysis. „Fólk yfirgefur félögin og á hverju ári er enn erfiðara að fá fólk til að sinna sjálfboðaliðastörfum til að reka félögin,“ stendur í bréfinu

Benda bréfritarar á að íþróttinni sé útvegaður takmarkaður tími í einkahúsi. Í eigin aðstöðu geta félögin sótt á og náð í iðkendur sem hefur ekki verið hugað að eins og eldri borgara, skóla og fleiri innan raða Asparinnar svo dæmi séu tekin.

Í núverandi aðstöðu er ekki hægt að búa til afreksfólk og benda bréfritarar á þá staðreynd að Arnar Davíð Jónsson flutti af landi brott sökum aðstöðuleysis en hann varð fimmti í kjöri íþróttamanns ársins eftir stórkostlegt ár í fyrra þar sem hann vann Evrópumótaröð keilunnar meðal annars.

Jóhann Ágúst Jóhannsson, formaður Keilusambands Íslands, segir að staðan sé sú að aðeins séu til tveir keilusalir á Íslandi. Annar í Egilshöll og hinn á Akranesi. Þegar mest var, voru brautir líka í Öskjuhlíð og á Akureyri. „Þetta er engin gagnrýni á reksturinn í Egilshöll – við viljum hafa salinn þar alltaf fullan því þetta er svo skemmtileg íþrótt, en það segir sig sjálft að þegar afreksíþróttamenn þurfa að deila tíma með almenningi þá verður erfitt að bæta sig. Í keilu þarf að laga hin ýmsu smáatriði og það gengur erfiðlega ef það er bara hægt að kasta á 10 mínútna fresti.“

Jóhann bendir á til einföldunar að fótboltinn ætti ekki sinn Gylfa Sig, sinn Jóhann Berg og fleiri góða ef þeir hefðu bara fengið að æfa á hálfum velli – því það væri bumbubolti á hinum helmingnum. „Það verður enginn góður í golfi með því að spila alltaf áttundu braut í GKG. Sama er með keiluna. Enginn salur er eins og engar brautir í sama salnum eru eins. Það er mikil tækni á bak við hvert skot.“

Hann segir að tilgangurinn með bréfinu sé að hugsa fram í tímann. Það sé hægt að setja upp sal á ÍR-svæðinu og sjá íþróttina vaxa og dafna án þess að setja peninginn í vitlausa átt. „Okkur vantar okkar rými og okkar stað.“

Sjá frétt á fréttablaðinu

X