Ástrós Pétursdóttir er Íslandsmeistari 2018 í keilu graphic

Ástrós Pétursdóttir er Íslandsmeistari 2018 í keilu

08.04.2018 | höf: Jóhann Ágúst

Ástrós Pétursdóttir úr ÍR sigraði í gær á Íslandsmóti einstaklinga í keilu en keppni lauk í beinni útsendingu á RÚV og má sjá upptöku frá keppninni á vef þeirra hér. Ástrós sigraði aðra ÍR konu í úrslitum hana Lindu Hrönn Magnúsdóttur en vert er að vekja athygli á að Linda er 59 ára og er enn meðal fremstu kvennkeilara okkar og var meðal annars valin kvennkeilari ÍR 2016 og 2017. Þetta sýnir glöggt að í keilu getur fólk verið í fremstu röð lengur en í mörgum öðrum íþróttum. Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Ástrósar en hún sigraði árið 2014. Hjá körlunum komst Stefán Claessen í úrslitin en datt út í fyrsta leik og endaði því í 3. sæti. Glæsilegur árangur engu að síður hjá ÍR-ingum á mótinu.

Alls tóku 24 karlar og 24 konur þátt í mótinu í ár og er þetta líklega mesti fjöldi kvenna sem tekið hefur þátt á Íslandsmóti hingað til. ÍR átti 11 þátttakendur hjá konum eða flesta frá einu félagi og komust 7 þeirra áfram í 12 manna milliriðil og 4 í 8 manna úrslit. Vel gert hjá ÍR konum. Hjá körlum voru það 9 ÍR keilarar sem tóku þátt og komust 7 þeirra áfram í 16 manna úrslitin og 5 þeirra í 8 manna úrslit, vel gert þar líka.

Á mótinu í ár náði Andrés Páll Júlíusson úr ÍR sínum þriðja fullkomna leik í móti þegar hann spilaði 300 í forkeppninni og er þetta hans annar 300 leikur á árinu en hinum náði hann á WOW-RIG móti ÍR í byrjun febrúar. Andrés Páll var einn þeirra sem komst í 8 manna úrslitin og endaði í 7. sæti.

Við óskum Ástrósu, Lindu og Stefáni til hamingju með árangurinn í ár.

X