Andrés Páll og Linda Hrönn keilarar ársins graphic

Andrés Páll og Linda Hrönn keilarar ársins

27.12.2017 | höf: Jóhann Ágúst

Í kvöld fór fram í félagsheimili ÍR athöfn þar sem íþróttafólk ÍR fyrir árið 2017 var kunngjört. Keilarar ársins hjá Keiludeild ÍR eru þau Andrés Páll Júlíusson ÍR KLS og Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR TT en stjórn deildarinnar ákvað valið á stjórnarfundi þann 6. desember s.l. Helstu afrek þeirra á árinu voru að Andrés hóf árið á því að setja tvö Íslandsmet í keilunni. Náði hann fullkomnum leik eða 300 pinnum á RIG mótinu sem Keiludeild ÍR heldur. Bætti hann um betur og setti Íslandsmet í tveim leikjum en hann náði 579 pinnum eða 289,5 í meðaltal og má búast við því að það met standi í nokkurn tíma. Andrés varð síðan í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga um miðjan febrúar og var í raun bara hársbreidd frá titlinum í ár. Andrés varð síðan bæði Deildar- og svo Íslandsmeistari með liði sínu ÍR KLS á árinu. Andrés keppti á mjög sterku móti í Munchen í mars sem var hluti af Evróputúrnum í ár. Náði hann þar einum besta árangri íslenskra keilara á erlendu móti með því að komast í gegn um 1. niðurskurðinn á mótinu og var mjög nálægt efstu 8 sem héldu áfram. Spilaði hann 1.457 í 6 leikjum forkeppninnar eða 243 í meðaltal.

Linda varð efst ÍR kvenna á Íslandsmóti einstaklinga en þar náði hún 6. sæti. Linda varð í 2. sæti á Íslandsmóti liða nú í vor með liði sínu ÍR TT og hún varð í 4. sæti á Íslandsmóti para með Stefáni Claessen úr ÍR nú í haust. Linda hefur verið í afrekshópi Keilusambandsins og keppti nú síðast úti á HM þar sem hún spilaði einn besta leik íslensku keppendanna en þar náði hún 243 leik. Linda hefur auk þess tekið þátt í mótum erlendis og staðið sig með ágætum á þeim.

Auk viðurkenninga fyrir íþróttafólks deilda voru afhent HM merki félagsins og að þessu sinni voru það eingöngu keilarar sem fengu sín merki enda nýafstaðin bæði Heimsbikarmót einstaklinga sem Einar Már Björnsson tók þátt í en það mót fór fram í Hermosillo í Mexíkó. Nokkrir ÍR keilarar tóku síðan þátt í HM landsliða sem fram fór í Las Vegas í Bandaríkjunum um síðustu mánaðarmót en það voru þau Bergþóra Rós Ólafsdóttir, Guðný Gunnarsdóttir, Gunnar Þór Ásgeirsson, Hafþór Harðarson og Linda Hrönn Magnúsdóttir.

Tækifærið var notað í kvöld til að afhenda kristalspinna fyrir 300 leiki en á þessu ári náðu þrír ÍR keilarar sínum fyrsta 300 leik. Andrés Páll náði leiknum eins og áður segir á RIG mótinu í febrúar en hann fékk sinn kristalspinna afhentan í vor. Í kvöld voru það Daníel Ingi Gottskálksson og Hlynur Örn Ómarsson sem báðir náðu 300 leik í Pepsí móti ÍR nú nýverið sem fengu sína afhenta.

Að venju voru svo afhent Silfurmerki ÍR fyrir sjálfboðaliðsstörf í þágu félagsins og að þessu sinni voru það Jóhann Ágúst Jóhannsson formaður Keiludeildar ÍR og Linda Hrönn Magnúsdóttir sem fengu merki afhent.

Öllu þessu fólki óskum við til hamingju með viðurkenningarnar og þökkum fyrir árið 2017.

 

Hlynur Örn og Daníel Ingi fá kristalspinna afhentaSilfurmerki ÍR 2017Keilarar ÍR fá afhent HM merki ÍR

X