Heiðursviðurkenningar og íþróttafólk Judodeildar ÍR graphic

Heiðursviðurkenningar og íþróttafólk Judodeildar ÍR

23.12.2021 | höf: ÍR

Silfurmerki ÍR 

Felix Exequiel Woelflin og Magnús Sigurjónsson voru heiðraðir silfurmerki ÍR fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

 

Felix Exequiel Woelflin – Aðalþjálfari og meðstjórnandi judodeildar ÍR

Felix Exequiel Woelflin hefur komið að þjálfun víða innan ÍR. Felix er fjölhæfur þjálfari og hefur verið með styrktar og tækniþjálfun í fótbolta og frjálsum íþróttum. Felix er nú orðin aðalþjálfari Júdódeildar og hefur deildin nú þegar unnið 4 Íslandsmeistaratitla undir hans stjórn. Felix er enn fremur sannur félagsmaður og er alltaf tilbúinn að aðstoða og veita hjálparhönd þegar á þarf að halda. Við væntum mikils af Felix í framtíðinni í uppbyggingu júdó hjá félaginu.

 

Magnús Sigurjónsson – Ritari judodeildar ÍR

Magnús Sigurjónsson hefur setið í stjórn Judodeildar ÍR í rúmlega fimmtán ár, þ.e.a.s. frá stofnun Judodeildar ÍR árið 2006. Hann hefur verið ritari öll árin nema eitt tímabil og er hann eini stjórnarmeðlimur Judodeildar ÍR sem hefur setið í stjórn deildarinnar frá upphafi hennar. Magnús hefur ekki eingöngu setið í stjórn Judodeildar ÍR en hann hefur einnig iðkað íþróttina vel. Magnús hefur verið, og er, sannur stuðningsmaður Judodeildar ÍR og hefur unnið ýmis óeigingjörn störf fyrir deildina. Hann hefur tekið þátt í mótastjórn fyrir deildina þegar deildin hélt Judomót hér áður fyrr. Einnig hefur hann starfað fyrir deildina á stærri mótum Judosambands Íslands ásamt alþjóðamótum og hefur verið verðmætt fyrir Judodeild ÍR að senda starfsmenn á slík mót. Magnús hefur einnig útvegað deildinni tæki sem hafa komið sér vel í starfinu. Magnús er því vel að Silfurmerki ÍR kominn.

 

Íþróttafólk Judodeildar ÍR 2021

Matthías Stefánsson og Sabrína Heiður Ragnheiðardóttir eru íþróttafólk Judodeildar ÍR 2021.

 

Matthías Stefánsson – Íþróttakarl Judodeildar ÍR 2021

Matthías byrjaði aftur að æfa hjá Judodeild ÍR í byrjun árs eftir um tveggja til þriggja ára pásu. Hann fór nokkuð fljótt að æfa mikið og skilaði það sér í sigrum á mótum. Hann vann nokkur mót á árinu en stærsti sigur ársins var á Íslandsmeistaramótum Judosambands Íslands. Matthías vann gull í sínum flokki, sem er undir 21 árs -100kg flokkur, en ekki nóg með það því hann vann einnig Íslandsmótið í Seniora flokki sem er efsti flokkurinn til að sigra á Íslandi. Matthías er því tvöfaldur Íslandsmeistari árið 2021. Hann hefur unnið vel fyrir þeim árangri sem hann er að ná en hann stundar um 12 skipulagðar æfingar á viku. Hann fór í viku æfingabúðir til Danmerkur með landsliðinu til að æfa með danska landsliðinu og liðum frá öðrum löndum. Einnig hefur hann verið að ferðast erlendis til að keppa og vann hann til tvennra bronsverðlauna á Opna Finnska og til Silfurverðlauna á Judo Baltic Sea Championships.

Matthías mun svo hefja nýtt ár á því að fljúga út í æfingabúðir á nýársdag 1. Janúar 2022 til að æfa með landsliðum hinna norðurlandanna.

 

Sabrína Heiður Ragnheiðardóttir – Íþróttakona Judodeildar ÍR 2021

Sabrína byrjaði að æfa aftur hjá Judodeild ÍR í byrjun árs 2021 eftir um tveggja til þriggja ára pásu og var dugleg að mæta á æfingar ásamt því að byrja að þjálfa yngri hóp. Hún æfði vel og var fljótt komin með gott þrek fyrir judoglímur. Sabrína keppti á Íslandsmóti Seniora sem er efsti flokkurinn til að keppa í en þar þurfti hún að keppa í þyngri þyngdarflokki en hún skráði sig í vegna þess að engin önnur var í hennar flokki. Hún vann þar til bronsverðlauna þrátt fyrir að vera að keppa upp fyrir sig bæði í aldri og þyngd. Sabrína keppti svo á Íslandsmótinu í sínum flokki sem er undir 21 árs -63kg og sigraði hún þar sinn flokk og varð þá Íslandsmeistari 2021. Hún stundaði svo 1. stigs þjálfaramenntun ÍSÍ sl. sumar og stóðst hún námskeiðið með glæsibrag.

 

Til hamingju öll og vel gert!

Myndir af verðlaunaafhendingunni hér fyrir neðan.

X