ÍR í sókn í 110 ár

ÍR-ingar fagna 110 ára afmæli félagsins á morgun 11. mars sem er stofndagur þess.

Iðkendur, þjálfarar og sjálfboðaliðar
Frá stofnun hefur ÍR starfað óslitið fram á daginn í dag og er nú eitt öflugasta íþróttafélag landsins með 2300 iðkendur í tíu íþróttagreinum sem leiðbeint er af 150 þjálfurum.  Vel á annað þúsund sjálfboðaliðar leggja sitt að mörkum í stjórnun, mótahaldi, dómgæslu, fjáröflun og alls konar vinnu sem heldur öflugu íþróttastarfi deildanna og aðalstjórnar gangandi.

Sigursælasta íþróttafélag landsins
ÍR-ingar hófu fyrstir íslendinga að iðka frjálsíþróttir á Landakotstúninu árið 1907 og eru nú 110 árum síðar öflugasta og sigursælasta frjálsíþróttafélag landsins frá upphafi með Anítu Hinriksdóttur í fararbroddi.  Karlalið ÍR í körfubolta komst í átta liða úrslit úrvalsdeildarinnar í gær en ÍR-ingar státa af því að hafa unnið flesta Íslandsmeistaratitla allra körfuboltaliða ásamt KR eða þrettán.  Keiludeild ÍR er sú öflugasta á landinu og hefur verið lengi og skíðadeildin státar af langri og farsælli sögu en Helga María Vilhjálmsdóttir er fremsti skiðagarpur ÍR-inga um  þessar mundir og keppti á síðustu Ólympíuleikum.  Handboltinn á langa og farsæla sögu að baki hjá ÍR en bæði karla- og kvennalið ÍR berjast nú um sæti í efstu deild.  Knattspyrna hefur verið iðkuð óslitið frá 1970 eða frá þeim tíma sem ÍR flutti aðalaðsetur sitt í Breiðholtið.  Bæði karla og kvennalið ÍR í knattspyrnu leika í næst efstu deild á komandi keppnistímabili.  Iðkun fimleika er hafin að nýju hjá ÍR en félagið var fyrst allra félaga til að hefja fimleikaæfingar árið 1907.  Þrjár bardagaíþróttir eru stundaðar hjá ÍR, júdó, taekwondo og karate og uppgangur í þeim öllum en um síðustu helgi varð Aron An Ky fyrsti ÍR-ingurinn til að verða Íslandsmeistari karla í kata í karate.

Æfinga- og keppnisaðstaða
Aðalaðsetur ÍR-inga til æfinga og keppni er í Breiðholti þar sem félagið á sitt félagsheimili og knattspyrnuvelli í Suður-Mjódd auk þess sem þeir reka íþróttahúsin við Breiðholtsskóla, Austurberg og Seljaskóla.  Frjálsíþróttmenn æfa og keppa að mestu í Laugardalnum en á því verður breyting þegar nýr frjálsíþróttavöllur verður tekinn í notkun árið 2018 á ÍR-svæðinu í Suður-Mjódd.  Aðstaða keiludeildar er í Egilshöll og skíðadeildar í Bláfjöllum þar sem ÍR-inga eiga skíðaskála.

Aðstöðuuppbygging
Nýlega var undirritað samkomulaga ÍR og Reykjavíkurborgar um mikla uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir ÍR og Breiðholtsbúa.  Nýtt gervigras verður tekið notkun 2017, frjálsíþróttavöllur og knatthús yfir hálfan fótboltavöll 2018, keppnishús fyrir handbolta og  körfubolta árið 2020 ásamt tengibyggingu við ÍR-heimili.  Fimleikahús með aðstöðu fyrir bardagaíþróttir á að taka í notkun árið 2023.

Formaður
Ingigerður Guðmundsdóttir er formaður félagsins en hún er fyrsta konan til að gegna því embætti í sögu félagsins.

X