Kveðja frá knattspyrnudeild – Valgreiðslur í heimabanka graphic

Kveðja frá knattspyrnudeild – Valgreiðslur í heimabanka

20.09.2021 | höf: ÍR

Ágæti ÍR-ingur.

Starfið í knattspyrnudeild ÍR heldur áfram að vaxa. Við höfum á undanförnum árum verið að ná
vopnum okkar á ný og hafa aldrei fleiri keppnislið á vegum félagsins tekið þátt í Íslandsmótum.

Mikilvægi íþrótta hefur líklega sjaldan verið eins augljóst og í þeim aðstæðum sem ríkja nú í veröld að
berjast við heimsfaraldur Coronaveirunnar alræmdu. Upplyftingin og tilbreytingin sem íþróttirnar
gefa er ljós í tilveru sem stundum hefur virkilega þurft á því að halda.

Áhrif veirunnar á starf knattspyrnudeildar hefur verið verulegt. Deildin hefur á undanförnum árum
kjarnað sig og dregið verulega úr öðrum kostnaði en kjarnanum sem er laun þjálfara, uppbygging
aðstöðu og ferðalög vegna íþróttarinnar. Með því hafa verið tekin stór skref í að ná jafnvægi í rekstri
og gera deildina sjálfbæra.

Á árinu 2021 hafa mörg áföll dunið yfir þegar kemur að tekjusöfnun. Einfaldast er að benda á hversu
margir leikir hafa verið án áhorfenda eða með miklum fjöldatakmörkunum og því að styrkir frá
fyrirtækjum hafa dregist verulega saman í þröngu efnahagsástandi þeirra. Þess utan hafa
reglubundnir viðburðir eins og knattspyrnumót sem við höfum haldið, samkomur eins og
kótilettukvöld og hverfisdansleikir fallið niður auk þess sem laun fyrir aðstoð við viðburði eins og
tónleika og víðavangshlaup hafa þurrkast upp enda þeim nær öllum aflýst vegna Covid

Okkar draumur er að ÍR verði hjartsláttur hverfisins, öflugur lykilaðili í velferð Breiðholts og
sameiningartákn. Það ástand sem hér er lýst að ofan hefur tekið á og reynir mjög á þetta verkefni.

Við vonum að Breiðhyltingar deili þessari sýn okkar og því langar okkur að leita til ykkar á þann hátt
að bjóða ykkur að styrkja okkar starf með greiðslu valgreiðslu sem stofnuð verður í heimabanka.
Með því að greiða valgreiðsluna er verið að taka þátt í að styrkja kjarnastarf félagsins og byggja upp
framtíð þar sem #hvítbláahjartað slær ótt og títt með hverfinu sínu, fyrir okkur öll.

Ef einhver vill í stað þess að greiða valgreiðsluna leggja starfinu lið með annarri upphæð en þar
stendur til boða má leggja framlag inn á 0115-26-040399 og kennitala þá 560284-0399
Áfram ÍR – #hvítbláahjartað

Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð – Fótbolti.net

X