ÍR með viðurkenningar á uppskeruhátíð FRÍ graphic

ÍR með viðurkenningar á uppskeruhátíð FRÍ

10.12.2020 | höf: ÍR

Viðurkenningar Frjálsíþróttasambands Íslands vegna 2020

Árið 2020 var engu líkt fyrir íþróttafólk landsins eins og aðra landsmenn. Samt sem áður þá náðu margir mjög góðum árangri, flott mót og hlaup voru haldin og að sjálfsögðu stóðu margir íþróttamenn upp úr fjöldanum og það ber að viðurkenna. Viðurkenning fyrir frammistöðu er gríðarlega mikilvæg fyrir þann sem hana hlítur og sér í lagi þegar margra ára vinna er að skila niðurstöðu sem eftir er tekið. Sex ÍR-ingar fengu viðurkenningu sumir fleiri en eina. Fyrir ÍR þá er þetta líka mikil viðurkenning því öflugt starf byggir ekki á neinu nema þeim einstaklingum sem

Pétur Guðmundsson þjálfari ársins

Pétur Guðmundsson kastþjálfari hjá ÍR var valinn þjálfari ársins en hann þjálfar meðal annarra kringlukastarann, Guðna Val Guðnason. Pétur keppti sjálfur í kúluvarpi til fjölda ára og á hann enn Íslandsmetin í þeirri grein bæði innan- og utanhúss, hann er því reynslumikill sem afreksíþróttamaður sjálfur sem er gríðarlega mikilvægt þegar um er að ræða þjálfun afreksfólks. Pétur hefur þjálfað hjá ÍR til fjölda ára og gríðarlega mikilvægur hlekkur í þjálfara- og afreksteymi deildarinnar. Til hamingju Pétur með þessa verðskulduðu viðurkenningu.

Hlynur Andrésson götuhlaupari, langhlaupari og millivegalengdahlaupari ársins

Hlynur var valin götuhlaupari ársins en einnig lang- og millivegalengdahlaupari ársins og geri aðrir betur, það þarf mikla hæfileika og getu til að geta spannað allar þessar vegalengdir. Hlynur átti mörg góð hlaup á árinu en nú síðast Íslandsmet í hálfu maraþoni á HM í hálfu maraþoni í Póllandi í október og var tími hans 1:02:47 klst. Þetta hlaup setti Hlyn á nýjan stall sem langhlaupari og verður gaman að fylgjast með næstu skrefum hans. Annað Íslandsmetið sem Hlynur setti var í 10.000 metra hlaupi á braut en tími hans í hlaupinu var 28:55,47 mín. Þriðja Íslandsmet Hlyns á árinu var í 3.000 metra hlaupi það setti hann í ágúst í Hollandi þegar hann hljóp á tímanum 8:02,60 mín. Hlynur hlaut viðurkenningu frá FRÍ vegna þessara Íslandsmeta. Glæsilegt ár hjá Hlyni sem stefnir ótrauður á keppni á Ólympíuleikunum á næsta ári en hann er einn þriggja ÍR-inga í þeim hópi en alls eru fimm íslenskir frjálsíþróttamenn í hópnum.

Andrea Kolbeinsdóttir langhlauparar ársins

Andrea hljóp frábærlega á HM í hálfu maraþoni í Pólandi í október þar sem hún kom í mark á tímanum 1:17:52 klst. en það er næst besti tími íslenskrar konu frá upphafi í greininni og jafnframt stúlknamet 20-22 ára.

Ingibjörg Sigurðardóttir millivegalengdahlaupari ársins

Ingibjörg Sigurðardóttir var valin kven millivegalengdahlauparar ársins en viðurkenninguna fékk hún fyrir árangur sinn í 800 metra hlaupi á MÍ innanhúss. Hún hljóp vegalengdina á 2:16,87 mín og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Guðni Valur Guðnason kastari ársins og stigahæsta frjálsíþróttaafrek ársins

Kringlukastarinn Guðni Valur var valinn kastari ársins en hann átti fimmta lengsta kast ársins í heiminum 69,35 m sem jafnframt er nýtt glæsilegt Íslandsmet. Hann átti einnig stigahæsta afrek ársins samkvæmt stigatöflu World Athletics, 1232 stig, og er stigahæsta afrek Íslendings frá upphafi sem er mjög glæsilegur árangur. Hann náði einnig lágmarki á HM í París en því móti var frestað. Guðni er í hópi með framúrskarandi frjálsíþróttafólki FRÍ, sem þýðir að hann er í top 24 í heiminum eða top 12 í Evrópu og hlaut hann afreksstyrk FRÍ við það tilefni en það felur í sér fjárhagslegan styrk sem og aðgengi að fagteymi FRÍ. Guðni Valur skipar Ólympíuhóp FRÍ.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir spretthlauparar ársins, stúlka ársins, afreksefni og Ólympíuhópur FRÍ.

Guðbjörg Jóna var valin spretthlauparar ársins fyrir 200 metra hlaup sitt innanhúss þar sem hún bætti eigið stúlknamet 18-19 ára og 20-22 ára með tímann 23,98 sek. Guðbjörg Jóna var jafnframt valin stúlka ársins 19 ára og yngri. Guðbjörg er í flokki með afreksefnum FRÍ en til að ná inn í þann hóp þarf íþróttamaður að ná á lágmark á stórmót ungmenna en Guðbjörg náði lágmarki í 200m á HM U20 sem því miður var frestað. Síðast en ekki síst hefur Guðbjörg verið valin í Ólympíuhóp FRÍ í 200m hlaupi.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir, afreksefni FRÍ

Elísabet Rut var valin flokk með afreksefnum FRÍ en til að ná inn í þann hóp þarf íþróttamaður að ná á lágmark á stórmót ungmenna en hún náði lágmarki í sleggjukasti, 61,58 m með 4 kg sleggju, á HM U20 sem því miður var frestað.

Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp

Erna Sóley hlaut viðurkenningu frá FRÍ vegna Íslandsmets innanhúss á árinu, 16,19 m en Erna er að megninu til þjálfuð af Pétri Guðmundssyni.

X