Framkvæmdir við frjálsíþróttavöll ÍR og vallarhús í fullum gangi

Í gær var byrjað að steypa upp vallarhúsið við nýjan frjálsíþróttavöll ÍR.  Húsið er það fyrsta hér á landi sem hannað er sérstaklega til að þjónusta frjálsíþróttir.   Aðalarkitekt hússins er Lárus Guðmundsson hjá arkitektastofunni Arkís, en Lárus er öllum hnútum kunnugur í frjálsíþróttastarfi ÍR, faðir Sindra kúluvarpara, Söru og Ásdísar Evu sem báðar æfðu og kepptu undir merkjum ÍR.  Í húsinu verða rúmgóðar geymslur fyrir tæki og búnað frjálsíþróttavallarins, vinnuaðstaða fyrir þjálfara, aðstaða fyrir mótahald, tímatöku og veitingasölu, vélageymsla, almenningssalerni og tæknirými.  Á þaki hússins og til hliðar við það verður áhorfendaaðstaða.  Vertakafyrirtækið Geislasteinn ehf sér um uppsteypu og utanhússfrágang sem á að ljúka á haustdögum en þá á eftir að ljúka innahússfrágangi.

Framkvæmdir eru einnig komnar á fullt við síðasta verkhluta frjálsíþróttavallar ÍR.  Nú er unnið er að lagningu rafmagns og vatns um vallarsvæðið.  Að því loknu verður sett 20 sm malarlag ofan á núverandi undirlag, malbikað og svo lagt gerviefni ofan á malbikið.  Áætlað er að malbika í júlí og að hefja lagningu gerviefnisins um miðjan ágúst. Jarðval sf sér um vallarframkvæmdina sem áætlað er að ljúki í september.

IMG_0976IMG_0968

X