Íþróttafélag Reykjavíkur

Fjölnotahús ÍR opnað

Nýtt fjölnotahús ÍR sem hefur verið í byggingu undanfarin misseri var opnað seinasta föstudag, þann 4. september.

 

Það voru Ingigerður Guðmundsdóttir, formaður ÍR og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur sem klipptu á borða og hleyptu ungum ÍR-ingum á sína fyrstu æfingu í nýja húsinu.

Einnig fór Ólafur Jóhann Borgþórsson prestur í Seljakirkju með ræðu við athöfnina.

Viðstaddir voru einnig fulltrúar stjórna og þjálfara hjá ÍR, ásamt formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, Ómari Einarssyni forseta ÍTR og bygginganefndinni sem stýrði verkinu.

Nýtt fjölnotaíþróttahús kemur til með að bæta æfingaaðstöðu félagsins til muna, sérstaklega í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Einnig eru rými í húsinu fyrir lyftingaaðstöðu alls félagsins sem mun um leið veita bardagaíþróttum færi á að bæta sína aðstöðu í íþróttasal ÍR-heimilisins.

Því er um að ræða mikla og þarfa hagræðingu á starfsemi félagsins.

Enn fremur var á föstudag tekin skóflustunga að næsta áfanga á ÍR-svæðinu en það er húsnæði undir æfinga- og keppnisaðstöðu körfuboltans og handboltans í ÍR.

Hafist var svo handa við að moka fyrir því húsi núna á mánudeginum 7. september.

Það er því ljóst að á næstu árum mun aðstaða félagsins gjörbreytast og verður hægt að bjóða ungum sem öldnum iðkendum upp á enn betri og fjölbreyttari starfsemi en áður.

 

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir: 

Mikil uppbygging hjá ÍR:

Framtíð íþrótta er björt í Breiðholti

Mikil gleði ríkti í dag hjá ÍR í Mjóddinni þegar merkum áfanga í uppbyggingu á svæðinu var fagnað. Knatthús með frjálsíþróttaaðstöðu var tekið í notkun og að auki tóku Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ingigerður H. Guðmundsdóttir formaður ÍR fyrstu skóflustunguna að öðru íþróttahúsi suðaustan við knatthúsið.

„Ég ólst upp við það að þurfa að sækja íþróttir í önnur hverfi því skortur var á aðstöðu í Árbænum. Uppbygging fjölbreyttra íþróttamannvirkja í Breiðholti hefur verið eitt af mínum hjartans málum,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Ég er stoltur af þvi að þetta glæsilega knatthús, með æfingaaðstöðu fyrir frjálsíþróttafólk er tilbúið  og ekki síður að við erum að taka skóflustungu að íþróttahúsi sem verður fyrir handbolta, körfubolta og fleiri íþróttir. Á næsta ári tökum við nýjan frjálsíþróttavöll í Mjódd í gagnið og borgarráð hefur samþykkt að velja dans- og fimleikahúsi stað í Efra-Breiðholti. Framtíð íþrótta er björt í Breiðholti.“

 Gleðidagur fyrir ÍR-inga og samfélagið í Breiðholti

„Þetta er mikill gleðidagur fyrir okkur ÍR-inga sem og samfélagið okkar hér í Breiðholti,“ segir Ingigerður H. Guðmundsdóttir, formaður ÍR. „Þau mannvirki sem rísa hér á svæðinu munu gjörbreyta starfi ÍR, gera deildum félagsins sem eru 10 talsins með um það bil 2600 iðkendur, kleift að vinna mun betur saman og færir samfélaginu í Breiðholti stað til að efla vegferð og starf íþróttahreyfingarinnar enn frekar.  Tilgangur félagsins er jú fyrst og fremst að ná til barna og unglinga, tryggja framúrskarandi þjálfun, góða aðstöðu til íþróttaiðkunar og veita þeim tækifæri til að þróast sem íþróttafólk. Tryggja forvörn og reyna með öllum ráðum að halda börnum og unglingum áfram hjá okkur til að sjá þau vaxa og dafna sem sterkir fullorðnir einstaklingar“.

Knatthús og frjálsar íþróttir

Í knatthúsinu nýja er annars vegar gervigrasvöllur á við hálfan knattspyrnuvöll og hins vegar æfingasvæði fyrir frjálsar íþróttir. Alls rúmir 4.200 fermetrar. Auk þess er tveggja hæða hliðarbygging meðfram suðurhlið salarins og er hún rúmir 1.100 fermetrar. Þar verður meðal annars búningsaðstaða og tæknirými.

Skóflustunga  við íþróttahúsið sem nú er risið var tekin í febrúar 2019. Hönnun annaðist arkitektastofan Arkís og verktaki við uppbyggingu var Munck. Eftirlit var á hendi Hnit verkfræðistofu. Framkvæmdakostnaður er rúmur milljarður króna.

Handbolti, karfa og fleiri íþróttagreinar

Íþróttahúsið sem nú er búið að taka skóflustungu að verður byggt suðaustan við knatthúsið. Innangengt verður milli bygginganna. Í tengibyggingu er gert ráð fyrir búningsklefum og aðstöðu fyrir lyftingar.

Nýja aðstaðan mun mæta kröfum til keppni í handbolta og körfubolta, auk þess sem svigrúm verður til iðkunar og keppni í fleiri greinum. Byggingin verður á tveimur hæðum, nærri 4.200 fermetrar og þar af er íþróttasalurinn nær 2.400 fermetrar.

Í tveimur hliðarbyggingum hússins verður m.a. móttaka, salerni, áhaldageymslur, tæknirými og aðstaða fyrir fjölmiðla.

Áætlaður framkvæmdakostnaður er rúmar 1.150 milljónir.  Hönnun var á hendi ASK arkitekta og verktaki er Flotgólf ehf.

Framkvæmdir á lóð

Samhliða byggingarframkvæmdum verður unnið við lóðafrágang á ÍR svæðinu.  Aðallega verða þetta stórir grænir fletir sem ætlaðir eru til fótboltaiðkunar, en meira verður lagt í hönnun lóðar og frágang við aðalinngang og aðkomu.

 

 

Við óskum ÍR-ingum öllum til hamingju með þennan áfanga!

Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson
Knattspyrnu- og frjálsíþróttahöll Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR, í Suður-Mjódd vígt við hátíðlega athöfn og klippt á borða. 4. sept 2020 Myndir: Bjarni Brynjólfsson

 

X