Andrea Kolbeinsdóttir fjórða í kjöri Íþróttamanns ársins 2023

Þann 4. janúar sl. var kjöri íþróttamanns ársins lýst og varð hlaupakonan og ÍR-ingurinn Andrea Kolbeinsdóttir í fjórða sæti meðal okkar fremsta íþróttafólks en úrslitin má finna hér https://www.mbl.is/sport/frettir/2024/01/04/gisli_ithrottamadur_arsins_i_fyrsta_sinn/

Þetta er frábær viðurkenning og árangur hjá Andreu og mjög verðskuldað þar sem árið 2023 einkenndist af sigrum og frábærum árangri í öllum þeim hlaupum sem hún tók þátt í eins og eftirfarandi upptalning sýnir glögglega.

Andrea var valin íþróttakona Reykjavíkur 2023 og besta kona í götu-, utanvegahlaupum og sem langhlaupari ársins 2023. Hún bar höfðu og herðar yfir aðra konur í öllum milli- og langhlaupa vegalengdum, það er 1500m, 3000m hindrunarhlaupi og 5000m hlaupi. Varð Íslandsmeistari í öllum vegalengdum utanhúss frá 1500m og á götu í 5 km, 10 km, hálfu- og í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni þar sem hún var 33 mínútum á undan næstu konu! Sá titill varð 7. Íslandsmeistaratitillinn hennar.

Laugarveginn sigraði hún með yfirburðum á nýju brautarmeti. Öll götuhlaup sem hún tók þátt í sigraði hún og var nálægt bestu karlhlaupurunum. Hún keppti á HM í utanvegahlaupum í Innsburck, varð þar í 35. sæti í 45 km hlaupi. Andrea á 6 af 10 bestu áröngrum á íslenska stigalista ITRA 2023.

Svo má geta þess að Andrea var ekki eingöngu sigursæl á hlaupabrautinni en hún varð einnig Íslandsmeistari í skíðagöngu í tveimur greinum, 5km göngu með hefðbundinni aðferð og í liðakeppni, en einnig fékk hún tvö silfur í sprettgöngu og 10km göngu með frjálsri aðferð.

Við óskum Andreu Kolbeinsdóttur innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og góðs gengis á árinu 2024

Fyrir hönd Frjálsíþróttadeildar ÍR

Fríða Rún Þórðardóttir, formaður

X