Aðalstjórn ÍR samþykkti á fundi sínum þann 6. febrúar 2020 að fela Jóhannesi Bjarna Björnssyni, hæstaréttarlögmanni, Landslögum, að leggja fram kæru á hendur fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, vegna ætlaðrar misnotkunar á reikningum og fjármunum félagsins.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur stjórn félagsins verið að rannsaka fjárreiður félagsins vegna gruns um misferli. Grunur vaknaði um misferlið í byrjun vetrar og eftir fyrstu skoðun stjórnar félagsins á fjárreiðum framkvæmdastjóra í nóvember 2019 var haldinn fundur með framkvæmdastjóra þann 15. nóvember 2019. Hann lét þegar af störfum án uppsagnarfrests og án frekari réttar til launa. Var jafnframt lokað fyrir aðgang hans að reikningum og bókhaldi félagsins.

Nánari yfirferð stjórnar yfir reikninga félagsins leiddi til þess að framkvæmdastjóri félagsins hafði á starfstíma sínum frá 1. október 2018 til starfsloka þann 15. nóvember 2019 með óheimilum hætti tekið rúmar 6 milljónir króna af fjármunum félagsins. Í nóvember, desember og janúar greiddi framkvæmdastjórinn til baka þá fjármuni sem teknir voru án heimildar.

Við yfirferð stjórnarmanna ÍR yfir fjárreiður og meðferð reikninga, kom einnig í ljós að framkvæmdastjórinn virtist  hafa notað reikninga félagsins í eigin þágu, þegar hann gegndi öðrum trúnaðarstörfum á vegum ÍR, á tímabilinu 2014-2019. Leitað hefur verið skýringa á þessum millfærslum, sem nema röskum 10 milljónum króna, og verður það hlutverk lögreglu að meta hvort ástæða er til frekari aðgerða vegna þess.

Aðalstjórn mun einnig áfram vinna í því að fá skýringar á greiðslum sem fóru af reikningum félagsins eða einstakra deilda til fyrrum framkvæmdastjóra og krefjast endurgreiðslu á þeim fjármunum sem áttu að renna til ÍR. Aðalstjórn á engan annan kost en að vísa framhaldi þessa máls að öðru leyti til til þess bærra yfirvalda. Þá mun aðalstjórn leita leiða til að koma í veg  fyrir að slíkt endurtaki sig.

X