Reglur Frjálsíþróttadeildar ÍR eru settar fram sem rammi utan um framkvæmd Gamlárshlaups ÍR og Víðavangshlaups ÍR (hér eftir götuhlaup ÍR), með það að markmiði að hlaupin gangi sem best fyrir sig og að sem flestir njóti þess að taka þátt.
Í götuhlaupum á vegum Frjálsíþróttadeildar ÍR gilda reglur alþjóðafrjálsíþróttasambandsins IAAF um götuhlaup sem sjá má á vef Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) og reglur FRÍ um framkvæmd götuhlaupa. Reglur FRÍ gilda um Meistaramót Íslands. Til viðbótar við þær reglur gilda einnig eftirfarandi reglur Frjálsíþróttadeildar ÍR um götuhlaup á vegum félagsins.

 1. Þátttakendur bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér þær reglur sem gilda um þátttöku í götuhlaupum ÍR og fylgja þeim eftir í einu og öllu. Brot á reglum geta ógilt þátttöku í hlaupinu.
 2. Allir þátttakendur sem skrá sig í götuhlaup ÍR eru á eigin ábyrgð. Börn eru á ábyrgð foreldra.
 3. Þátttakendur skulu kynna sér fyrirkomulag hlaupanna hverju sinni á vef ÍR, annars vegar á upplýsingasíðu Víðavangshlaupsins og hinsvegar Gamlárshlaupsins, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um skráningu, hlaupaleið, ræs, tímatöku, aldusflokka auk verðlauna.
 4. Hlaupabrautir í götuhlaupum ÍR eru ekki að fullu lokaðar fyrir bílaumferð og því mikilvægt að sýna aðgát. Allir þátttakendur eiga að kynna sér skipulag á marksvæði, varðandi hraðahólf og skipulagðar útgönguleiðir.
 5. Þátttakendur skulu kynna sér hlaupaleiðir og eingöngu hlaupa eftir þeirri braut sem skilgreind hefur verið af hlaupahaldara. Hlaupið er á götum nema sérstaklega sé merkt að hlaupari eigi að víkja upp á gangstétt eða göngustíg, að öðru leiti skal hlaupari ávallt fylgja akvegi.
 6. Þátttakendur skulu hefja hlaupið á auglýstum tíma. Tímatökukerfið er eingöngu virkt á þeim tíma.
 7. Tímatöku lýkur 60 mínútum eftir að ræst er Víðavangshlaupi ÍR og 95 mínútur í Gamlárshlaupi ÍR. Þeir sem koma síðar í mark fá ekki skráðan tíma.
 8. Þátttakendur skulu hafa hlaupanúmerið sýnilegt að framan, allan tímann á meðan hlaupinu stendur. Hlaupanúmer er skráð á ákveðinn þátttakanda og gildir eingöngu fyrir þann einstakling. Frávik frá þessu ógildir tímatöku.
 9. Þátttakendur bera ábyrgð á tímatökuflögunni sem þeim er úthlutað í leigu. Hver þátttakandi má einungis hafa eina flögu. Þátttakendur bera einnig ábyrgð á að flagan sé skráð á þeirra nafn, að hún sé eingöngu notuð af þeim sem skráður er fyrir flögunni og skila henni að loknu hlaupi til starfsmanns hlaupsins. Frávik frá þessu ógildir tímatöku. Til þess að fá tímatöku verður að festa flöguna á skóinn. Ef það er ekki gert er ekki hægt að ábyrgjast að tímatöku.
 10. Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum. Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja. Frjálsíþróttardeild ÍR áskilur sér rétt til að vísa þeim frá, sem eru á hjóli eða öðrum farartækjum á hlaupabrautinni eða nálægt hlaupandi þátttakendum.
 11. Þátttakendum er óheimilt að þiggja þjónustu af öðrum en starfsmönnum hlaupsins í formi matar,drykkja eða líkamslegs stuðnings nema í neyð. Þá ber að tilkynna slíkt til hlaupstjóra.
 12. Þátttakendum er ekki heimilt að hafa meðferðis hunda eða önnur gæludýr í hlaupinu.
 13. Ekki er heimilt að taka þátt í hlaupinu á vél- eða rafmagnsknúnum farartækjum, reiðhjóli, hlaupahjóli, línuskautum, hjólabretti, skíðahjólum, handdrifnu hjóli (hand-cycle) eða öðrum álíka búnaði.
 14. Þátttakendur með barnakerrur eða stafgöngustafi skulu stilla sér upp aftast í upphafi hlaups.
 15. Þátttakendur skulu sýna öllum starfsmönnum hlaupsins kurteisi og fara eftir leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra.
 16. Þátttakendur skulu sýna öðrum hlaupurum tillitsemi og hafa í huga almennar umferðareglur.
 17. Þegar þátttakendur hafa lokið hlaupi er þeim ekki leyfilegt að fara aftur út á braut til þess að hlaupa með öðrum þátttakendum.
 18. Úrslit eru birt í á auglýstum vef auk þess sem tímar verða sendir í sms-i til hlaupara. Úrslit fyrir verðlaunasæti eru staðfest við verðlaunaafhendingu en að öðru leyti telst birting úrslita á auglýstum vef sem lögleg birting á úrslitum. Leiðréttingar á úrslitum verða að berast innan tilskilins auglýsts tíma og eru endanleg úrslit birt eigi síðar en þremur sólarhringum eftir hlaup.
 19. Skráning og forföll. Ef þátttakandi forfallast þá þarf hann að láta vita áður en forskráningu lýkur til að eiga rétt á endurgreiðslu.
 20. Útdráttarverðlauna verður að vitja fyrir kl. 14:30 á hlaupdag á auglýstum stað.
 21. Ef misræmi er á milli upplýsinga um götuhlaup ÍR á mismunandi miðlum þá gilda ávallt þær upplýsingar sem eru á vef ÍR, annars vegar á upplýsingasíðu Víðavangshlaupsins og hinsvegar Gamlárshlaupsins.

Síðast uppfært: 21.11.2016 klukkan 23:15

X