Tiana jafnaði aldursflokkamet Guðbjargar Jónu í 100m hlaupi graphic

Tiana jafnaði aldursflokkamet Guðbjargar Jónu í 100m hlaupi

23.06.2018 | höf: Kristín Birna

Bauhaus Junioren Galan boðsmótið hófst í dag og náðist stórgóður árangur í 100m stúlkna þar sem Tiana Ósk Whiworth hljóp á 11.68 sek og hafnaði í 4. sæti af 28 keppendum. Hún hljóp á 11.80 sek í undanrásum en 11.68 sek í -0,7 m/s vindi 2 klst síðar. Sigurvegarinn hljóp á 11.39 sek, 2. sætið var á 11.59 sek og 3. sætið á 11.60sek. Tími Tiönu er 2. – 3. besti tími íslenskrar konu í 100m frá upphafi en Tiana og Guðbjörg Jóna deila þessum sætum og hafa nú hlaupið nákvæmlega jafn hratt í 100m og deila því jafnframt aldursflokkametum í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir lenti í vandræðum í startinu í 100m og fór ekki af stað. Erna Sóley Gunnarsdóttir lenti í 7. sæti í kúluvarpinu með 13,93 metra en Erna Sóley á best 14.54 m. Þórdís Eva Steinsdóttir, FH varð í 9. í 400m á 55.34 sek sem er stutt frá hennar besta en hún á 55.16 sek frá árinu 2014. Mímir Sigurðsson varð 12. í kringlukasti með 48.71 m en hann á best 54,43 m og 53,90m á þessu ári.

Guðbjörg og Tiana hlaupa síðan 200m á morgun en hinir keppendurnir hafa lokið keppni.

Um helgina fer einnig fram MÍ í fjölþrautum en eftir fyrri dag leiðir Ísak Óli, UMSS, í karlaflokki með 3475stig en ÍR-ingurinn Benjamín Jóhann Johnsen sem nýverði náði þriðja sæti á Norðurlandameistaramóti er í fjórða sæti eftir daginn með 3168stig. Í flokki 16-17 ára leiðir Raguel Pino, UFA en í þriðja sæti eftir fyrri dag í þeim flokki er ÍR-ingurinn Úlfur Árnason. Frekari úrslit frá mótinu má finna hér

–Fríða Rún tók saman

X