Tiana á næstbesta tíma íslenskra kvenna í 100 m hlaupi! graphic

Tiana á næstbesta tíma íslenskra kvenna í 100 m hlaupi!

01.07.2017 | höf: María Stefánsdóttir

Keppni stendur yfir á Bauhaus Mannheim mótinu í Þýskalandi. Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir frá ÍR eru þar meðal keppenda og keppa báðar í 100m og 200m. Auk þeirra taka tveir aðrir íslenskir keppendur þátt í mótinu, þau Erna Sóley Gunnarsdóttir Aftureldingu sem þjálfuð er af Pétri Guðmundssyni kastþjálfari hjá ÍR, og Dagur Andri Einarsson FH.

Í riðlakeppninni hljóp Guðbjörg Jóna í 3. riðli og varð fjórða á tímanum 12,16 sek, sem er besti tími hennar í ár. Best á hún 12,08 sek frá í fyrra. Tími Guðbjargar Jónu dugði henni ekki til að komast í úrslit.

Tiana Ósk  hljóp í 4. riðli. Hún varð önnur í riðlinum á tímanum 11,87 sek sem er stórglæsileg bæting, en hún átti best 12,07 sek frá því fyrr í vor. Sá tími fleytti henni örugglega inn í úrslitin þar sem hún bætti sig enn frekar og hljóp 100 metrana á 11,77 í löglegum vindi, sem er annar besti tími íslenskrar konu frá upphafi. Aðeins Sunna Gestsdóttir hefur hlaupið hraða, en Íslandsmet hennar 11,63 sek er tæplega 13 ára gamalt, sett i júlí 2004. Tiana hefur með þessum árangri náð lágmörkum bæði í 100 og 200 m hlaupi á EM 19 ára og yngri sem fer fram í Grosseto á Ítalíu 20.-23. júlí nk.

Erna Sóley bætti sig um 54 cm í kúluvarpi, kastaði 4 kg kúlunni 13,91 m. Dagur Andri hljóp á 11.02 sek og komst ekki áfram. Hann á best 10,87 sek og var því nokkuð frá sínu besta.

 

Fríða Rún tók saman

X