Keppni lokið á Evrópubikar í þraut graphic

Keppni lokið á Evrópubikar í þraut

02.07.2017 | höf: Kristín Birna

Keppni er lokið á Evrópubikarmóti landsliða í fjölþrautum. Tveir ÍR-ingar tóku þátt, þau Helga Margrét Haraldsdóttir og Tristan Freyr Jónsson. Auk þeirra skipuðu Ísak Óli Traustason UMSS, Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki, Gunnar Eyjólfsson UFA, Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki og María Rún Gunnlaugsdóttir FH lið Íslands.

Tristan Freyr hafnaði í 4. sæti en 24 luku keppni af þeim 27 sem hófu hana. Tristan hlaut 7078 stig sem er skammt frá því sem hann hafði stefnt á, 7200 stig, sem er lágmark á EM 22ja ári og yngri. Þó svo að lágmarkið hafi ekki náðst stóð Tristan sig vel, hann er fæddur árið 1997 og er að keppa við fullorðna karlmenn. Til hamingju Tristan við erum stolt af þér og árangrinum þínum.

Árangur hans í keppninni um helgina var eftirfarandi: 100m 11,10 sek sem er í kringum þriðji besti árangur hans í 100m í þraut. Í langstökkinu stökk hann 7,07m sem er lengra en hann stökk í metþrautinni sinni á HM U20 í fyrra. Í kúluvarpinu kastaði hann 12,52m sem alveg við hans besta í kúluvarpi. Í hástökki stökk hann 1,86 m sem er undir væntingum en hann hefur verið að stökkva um 10 cm hærra þegar best lætur. Tristan hljóp hraðast allra í 400m, 49,77 sek sem er hans 5. besti tími frá upphafi. Hann hlaut 3,810 stig eftir fyrri daginn, aðeins 48 stigum frá þriðja sætinu.

Seinni dagur þrautarinnar hófst á 110m grindahlaupi og þar varð Tristan í 9. sæti á 15,38 sek. Í kringlukastinu kastaði hann 37,22 m sem er ekki langt frá hans besta og líklega besti árangur hans í þraut. Í stönginni stökk Tristan 4m slétta en hann á best 4,40m. Í spjótkasti kastaði hann 50,76 m og lauk keppni með þvi að hlaupa 1500m á 4:46.59 mín.

Liðsfélagar hans luku allir keppni, Ísak Óli Traustason í 14. sæti, Ingi Rúnar Kristinsson í 16. sæti og Gunnar Eyjólfsson í 24. sæti. Flott hjá þeim, gott að klára þrautina sem lið og eiga þeir allir framtíðina fyrir sér.

Helga Margrét er á sínu fyrsta ári í sjöþraut og var þetta í fyrsta sinn sem hún keppti með kvenna kastáhöldum og á kvennahæð í grindahlaupi. Hún hlaut 4065 stig og hafnaði í 18. og síðasta sæti en fimm keppendur luku ekki keppni.

Eftir fyrri dag var Helga Margrét í 20. sæti með 2779 stig en hún hljóp á 15,54 sek í grindinni, sem er mikil bæting hjá henni, stökk 1,51 m í hástökki sem er við hennar besta, kastaði kúlunni 9,86 m og hljóp 200m á 25,35 sek sem er bæting úr 25.64 sek.

Seinni dagur hjá konunum hófst á langstökki og þar náði Helga sér ekki á strik en tókst þó að fara gilt stökk. Í spjótkastinu kastaði hún 29,62 m og 800m hljóp hún á 2:33,68 mín.

Liðsfélagar Helgu þær María Rún Gunnlaugsdóttir og Irma Gunnarsdóttir höfnðu í 9. og 11. sæti. Flott hjá stelpunum að fara í gegnum þrautina og standa sig með prýði.

Fríða Rún tók saman.

X