Opnun nýs Frjálsíþróttavallar ÍR graphic

Opnun nýs Frjálsíþróttavallar ÍR

12.05.2022 | höf: ÍR

Opnun nýs Frjálsíþróttavallar ÍR

Þriðjudaginn 10. maí var frjálsíþróttavöllur ÍR í Skógarseli opnaður. Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, mætti á opnunina og fylgdist með íþróttafólki ÍR á öllum aldri taka nokkra spretti. Á staðnum var einnig Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasamband Íslands, og notaði hann tækifærið til þess að veita borgarstjóra gullmerki FRÍ fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar. Íþróttafélag Reykjavíkur vill þakka borginni fyrir þessa búbót og gott samstarf.

Frjálsíþróttavöllurinn, sem er hinn glæsilegasti, býður upp á fyrsta flokks aðstöðu til íþróttaiðkunar og uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til slíks vallar í dag. Við völlinn stendur sérhannað frjálsíþróttahús með áhaldageymslu, aðstöðu fyrir starfsemi, keppendur, fjölmiðla og áhorfendur. Koma hans er svo sannarlega mikill hvalreki, ekki bara fyrir ÍR-inga og Breiðholtsbúa, heldur alla frjálsíþróttahreyfingu landsins og mun nýtast vel til að efla íþróttina og okkar frjálsíþróttafólk enn frekar. Formleg opnun verður 29. maí en þá verður 78. Vormót ÍR haldið á vellinum.

Frjálsíþróttavöllurinn er frábær viðbót við það mikla uppbyggingarstarf sem hefur átt sér stað á ÍR-svæðinu en þar má nú finna grasvöll, gervigrasvöll, fjölnotahús með gervigrasi og frjálsíþróttaæfingaraðstöðu auk þess sem í félagsheimilinu er æfingaraðstaða fyrir júdó og taekwondo. Í ágúst verður jafnframt opnað nýtt parkethús sem mun nýtast bæði handbolta- og körfuboltaiðkendum á öllum aldri. Íþróttafélag Reykjavíkur, ásamt borgaryfirvöldum, mun halda áfram að skoða tækifæri til frekari uppbyggingar á svæðinu í þeim tilgangi að efla starfsemi og þjónustu enn frekar. Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt.

Glæsilegur völlurinn

Spretthörð ungmenni

Góðir ÍR-ingar

Dagur fær gullmerki FRÍ

Ávarp Borgarstjóra

Ávarp formanns FRÍ

Formaður ÍR í góðum félagsskap

Starfsmenn skrifstofu í góðum félagsskap

X