Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri fór fram í Kaplakrika í dag og sendi ÍR 12 keppendur til leiks. Alls voru 124 keppendur frá átta félögum skráðir á mótið, þar af sendi HSK A og B lið. Fjölnir og Afturelding sendu sameiginlegt lið sem og Katla-KR. Fínn árangur náðist á mótinu, töluvert um bætingar á besta árangri og hart barist í flestum greinum. Sett voru fjögur mótsmet og eitt aldursflokkamet leit dagsins ljós. Þar var á ferðinni Eva María Baldursdóttir sem gerði sér lítið fyrir og stökk 1.72m í hástökki 15 ára stúlkna.
Bestum árangri ÍR-inga náðu Helena Ósk Hallgrímsdóttir í hástökki 1, 55 m og 2. sætið, Brynja Hrönn Stefánsdóttir í 60m grindahlaupi, 10.22 sek sem er hennar besti árangur sem skilaði henni bronsverðlaunum og Bryndís Eiríksdóttir í 1500m, 5:57,85 mín og bronsverðlaun. Magnús Örn Brynjarsson varð þriðji í 400 m hlaupi á tímanum 60,38 sek og Einar Andri Víðisson fékk bronsið í 1500 m hlaupi og var tími hans 4:51,30 mín. Sveit ÍR-stúlkna í 4 x 200m boðhlaupi náði einnig í bronsverðlaun.
ÍR hafnaði í 3. sæti með 74 stig, 6 stigum á eftir Ármanni en HSK A sigraði með 113 stig. ÍR piltar urðu í 3. sæti í sinni stigakeppni með 31 stig og ÍR stúlkur urðu í 4. sæti með 43 stig.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman